Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, telur að útfærslan á nýja reiknilíkani mennta- og menningarmálaráðuneytisins sé alls ekki hagstæð skólum eins og MS. „Þetta er ekki vegna þess að MS er með annað kerfi en hinir skólarnir heldur vegna þess að MS er bóknámsskóli þar sem nemendur eru almennt að standa sig vel,“ segir hann í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Í frétt ráðuneytisins frá því í lok mars síðastliðins kemur fram að innleiðing á nýju reiknilíkani framhaldsskólanna standi nú yfir en því sé ætlað að dreifa fjármagni til framhaldsskóla á sanngjarnan hátt og auðvelda skólum að styðja við ákveðna nemendahópa, svo sem nemendur í brotthvarfshættu. Áhrifa endurskoðunar reiknilíkansins sé þegar farið að gæta í skiptingu fjármagns milli skólanna.
Már segir jafnframt að nemendur í skólum eins og MS ljúki fleiri námseiningum á ári en í bekkjarkerfinu og þá ljúki nemendur fleiri einingum á ári en áður var eftir að tekið var upp þriggja ára nám til stúdentspróf. „Reiknilíkanið gerir ráð fyrir að „full greiðsla“ fyrir nemanda komi til skólanna fyrir alla nemendur sem ljúka 45 til 60 einingum á ári. Þetta þýðir að ef „meðalnemandinn í ákveðnum skóla skilar 45 einingum á ári fær skólinn óskert framlag og sama framlag og sambærilegur skóli sem skilar 60 einingum á ári.“ Í MS og nokkrum öðrum bóknámsskólum er meðalnemandinn hins vegar að skila að meðaltali allnokkuð umfram þessar 60 einingar og fyrir þær umframeiningar er ekkert greitt. Þar sem hverri einingu fylgir kennsla fylgir þessu kostnaður því nemendur eiga rétt á kennslu. Við og aðrir skólar sem erum í þessari stöðu förum því illa út úr þessu í samanburði við aðra,“ segir Már.
Reiknilíkanið meingallað
Már telur að hið nýja reiknilíkan sé í sjálfu sér hvorki betra eða verra en hið gamla því báðar útgáfurnar séu meingallaðar. Skólum sé mismunað og engin tilraun gerð til þess að meta „raunkostnað“ við að halda úti lögbundinni starfsemi.
„Bóknámsskólarnir gjalda þess að enginn sem kemur að gerð þessa líkans virðist átta sig á því að ein mesta breyting sem hefur orðið á framhaldskólastiginu er í bóknáminu en ekki í iðn- og verknáminu. Reiknilíkanið sýnir greinilega að ráðamenn virðast halda að hlutirnir gangi að sjálfum sér og þetta reddist bara,“ segir hann.
Nemendum á framhaldsskólastigi hefur fækkað
Framlög til framhaldsskóla hér á landi nema um 35 milljörðum krónum á ári. Framlög til framhaldsskóla hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár en sú hækkun mun halda sér samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024, samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Nemendum á framhaldsskólastigi hefur fækkað að undanförnu en þeir eru nú um 22.000 í 30 skólum víðsvegar um landið. Í frétt mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu geri þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.
Breytingar á vinnumarkaði fyrirsjáanlegar
Meðal áhersluverkefna á framhaldsskólastigi er að efla starfs- og tækninám, tryggja gæði náms og kennslu og að fjölga útskrifuðum nemendum.
„Lögð hefur verið sérstök áhersla á að fleiri velji starfs- og tækninám og hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti stutt við verkefni sem ætlað er að vekja athygli og áhuga grunn- og framhaldsskólanema á slíku námi á framhaldsskóla- og háskólastigi. Fjármagni hefur jafnframt verið veitt til starfsnámsskóla með það fyrir augum að draga úr kostnaði nemenda í starfsnámi með lækkun efnisgjalda.
Fyrirsjáanlegt er að með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar verði verulegar breytingar á vinnumarkaði sem gera kröfur um þróun starfsnáms og öflugra samstarf stjórnsýslu, skóla og atvinnulífs. Huga þarf að starfsnámi en erfitt getur reynst að halda uppi kennslu vegna nemendafæðar. Tækifæri til umbóta tengjast meðal annars aukinni samvinnu innan framhaldsskóla, framboði á fjar- og dreifnámi og samstarfi við grunnskóla og foreldra,“ segir í frétt ráðuneytisins.
Til skoðunar úrbætur í húsnæðismálum MR, FS og FB
Enn fremur kemur fram hjá ráðuneytinu að liður í að standa vörð um gæði náms og kennslu í framhaldsskólum sé að skilgreina betur lykiltölur og birta tölfræði sem lýsir framhaldsskólakerfinu. Þar verði sjónum meðal annars beint að aðgengi að námi í öllum landshlutum. Með aukinni og betri tölfræði og gagnsærri fjárveitingum sé stefnt að aukinni skilvirkni í nýtingu fjár og auknum gæðum í námi og þjónustu. „Á síðustu árum hefur framlag til framhaldsskólastigsins hækkað umtalsvert þrátt fyrir fækkun nemenda. Hækkunin gerir framhaldsskólum kleift að bæta gæði kennslu og námsframboð. Einnig eru til skoðunar úrbætur í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskólans í Breiðholti.“
Jafnframt er bent á að mikilvægur þáttur í að efla menntun í landinu og hækka menntunarstig þjóðarinnar sé að stuðla að því að fleiri nemendur útskrifist úr framhaldsskólum. Niðurstöður úttekta sýni að ástæður brotthvarfs geti – auk ónógs undirbúnings úr grunnskóla – verið lítil námsleg eða félagsleg skuldbinding, vantrú á eigin getu, andleg vanlíðan eða lítill stuðningur og hvatning foreldra. Þá beri sérstaklega að huga að nemendum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli en framlag til íslenskukennslu slíkra nemenda hefur nú verið þrefaldað. Til að koma til móts við þá einstaklinga sem horfið hafa frá námi hafi verið tekin af öll tvímæli um rétt nemenda 25 ára og eldri til náms á framhaldsskólastigi. Þá hafi ráðuneytið unnið með dómsmálaráðuneytinu og Fangelsismálastofnun að stefnumótun um nám fanga.