Tíu dögum áður en að WOW air skilaði inn flugrekstrarleyfi sínu, hætti starfsemi og hóf gjaldþrotameðferð skilaði fyrirtækið og stéttarfélag flugmanna þess inn sameiginlegri umsögn um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Í umsögninni, sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW, formaður íslenska flugmannafélagsins og formaður Öryggisnefndar íslenska flugmannafélagsins skrifa saman undir segir að þessir aðilar telji „augljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta brýna samgöngumál þurfi að fara fram sem fyrst svo nást megi varanlegur friður um Reykjavíkurflugvöll allra landsmanna.“
Umrædd þingsályktunartillaga var lögð fram af fulltrúum fimm flokka á Alþingi í fyrra. Fyrsti flutningsmaður hennar er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Auk hans eru sex aðrir þingmenn flokksins á meðal flutningsmanna hennar. Aðrir flutningsmenn koma úr Miðflokki, Framsóknarflokki, Vinstri grænum og Flokki fólksins. Sambærilegar tillögur voru fluttar haustið 2016 og vorið 2017 en fengu ekki brautargengi á þingi.
Telur sjálfstjórnarrétt skertan
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti umsögn borgarlögmanns í um tillöguna í síðustu viku. Hún var á þann veg að Reykjavíkurborg leggist eindregið gegn því að tillagan verði samþykkt, meðal annars vegna þess að hún skerðir stjórnskrárvarðan sjálfstjórnarrétt borgarinnar, að slík lagasetning gengi gegn skipulagsáætlun sveitarfélagsins og væri í andstöðu við óskráða meginreglu stjórnskipunar um meðalhóf. Sú umsögn bíður nú samþykki borgarstjórnar. Þá hafa íbúasamtök miðborgarinnar sent inn umsögn sem viðrar sambærileg sjónarmið og þau leggjast einnig gegn atkvæðagreiðslunni.
Flestir aðrir umsagnaraðilar sem skilað hafa inn umsögn, að uppistöðu sveitarfélög á landsbyggðinni, styðja þingsályktunartillöguna.
Flugmenn styðja þjóðaratkvæði
Það gera Félag íslenskra atvinnuflugmanna og WOW air/Íslenska flugmannafélagið líka.
Í umsögn WOW air/Íslenska flugmannafélagsins, sem er dagsett 18. mars eða tíu dögum áður en WOW air fór í þrot, segir meðal annars að það sé mat umsagnaraðila „að málefni Reykjavíkurflugvallar séu ekki einkamál höfuðborgarinnar, heldur alls landsins og þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðsla þjóðþrifamál. Sem dæmi á ríkið meirihluta landsins undir flugvellinum og af þeim sökum hlýtur þjóðin að þurfa hafa lokaorð um framtíð Reykjavíkurflugvallar, en ekki bara Reykjavíkurbúar.“
Í umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir meðal annars að það sé „mjög skiljanlegt að fólk sjái ofsjónum yfir því hvað Reykjavíkurflugvöllur tekur mikið pláss. Reykjavíkurflugvöllur var upphaflega hannaður sem herflugvöllur þar sem byggingum var dreift um í hernaðarlegum tilgangi. Vegna þeirrar tilvistarkreppu sem flugvöllurinn hefur verið í er ásýnd og ástand bygginganna eins og raun ber vitni. Þar er fyrst og fremst um að kenna langvarandi óvissu um framtíð vallarins. Þetta er í raun sú byggð sem mætti etv. þétta í Reykjavík, byggðin sem tilheyrir Reykjavíkurflugvelli.“