Hlutfallslega færri nýbyggingar voru seldar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar á þessu ári samanborið við mánuðinn á undan. Í febrúar voru 11 prósent viðskipta á höfuðborgarsvæðinu nýbyggingar en 16 prósent viðskipta í janúar. Jafnframt hafa mun færri nýbyggingar selst á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra. Utan höfuðborgarsvæðisins er þróunin aftur á móti önnur en þar var hlutfall nýbygginga 24 prósent í febrúar. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Aukning í sölu nýbygginga utan höfuðborgarsvæðisins
Nýbyggingar eru skilgreindar af Íbúðalánasjóði sem íbúðir með skráð byggingarár sama og söluár eða árið þar á undan. Á milli mánaða og milli ára má sjá hlutfallslega minni sölu nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt skýrslunni voru 11 prósent viðskipta á höfuðborgarsvæðinu í febrúar vegna kaupa á nýbyggingum samanborið við 16 prósent viðskipta í janúar.
Til samanburðar var hlutfall nýbygginga 17 prósent kaupsamninga í febrúarmánuði í fyrra og í janúar 2018 var hlutfallið 33 prósent. Það sem af er árinu hafa 120 nýbyggingar selst á höfuðborgarsvæðinu en á sama tímabili í fyrra var sá fjöldi um 276.
Á ákveðnum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins er þróunin hins vegar önnur. Í febrúar voru 24 prósent íbúðaviðskipta utan höfuðborgarsvæðisins vegna nýbygginga og það sem af er ári hafa 119 nýbyggingar selst þar en 83 fyrir ári síðan. Þá var hlutfallsleg aukning mest í Reykjanesbæ og Hveragerði.
Mesta lækkun vísitölu íbúðaverðs í rúm átta ár
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,0 prósent í febrúar sem er mesta mánaðarlækkun frá desember 2010 þegar íbúðaverð lækkaði um 1,2 prósent milli mánaða. Vísitala íbúðaverðs mælir breytingu á íbúðaverði samkvæmt undirrituðum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni.
Í skýrslunni segir að nýbyggingar séu alla jafna dýrari en eldri íbúðir og gæti því hlutfallslega minni sala þeirra í febrúar skýrt lækkun á vísitölu íbúðaverðs milli mánaða. Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 3,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu en það er minnsta 12 mánaða hækkun sem hefur mælst síðan í maí 2011.
6474 íbúðir í byggingu í mars
Óuppfyllt íbúðaþörf á landinu öllu er nú um 5.000 til 8.000 íbúðir, samkvæmt niðurstöðu átakshóps ríkisstjórnarinnar um aukið framboð á íbúðum. Mikil uppbygging er hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og er áætlað að um 10.000 íbúðir verði byggðar á árunum 2019 til 2021. Gangi þær áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf verða um 2.000 íbúðir í upphafi árs 2022.
Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins voru 6.474 íbúðir í byggingu í mars 2019 á höfuðborgarsvæðinu, í nágrannasveitarfélögum þess og á Norðurlandi. Mikil aukning hefur verið á íbúðauppbyggingu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, sérstaklega í Reykjanesbæ en þar eru nú um 530 íbúðir í byggingu.