Þrettán þingmenn úr öllum flokkum eru nú erlendis á vegum Alþingis. Þingmennirnir sitja ýmsa fundi alþjóðlegra og evrópskra samtaka sem Alþingi á aðild að. Meðal þeirra sem eru fjarverandi á þingi eru Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson gagnrýndi það á Alþingi í gær að umræður um þriðja orkupakkann svokallaða, ættu sér stað á sama tíma og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins væri staddur erlendis vegna alþjóðasamstarfs Alþingis. Miðflokkurinn hefur farið fremstur í flokki andstæðinga orkupakkans á þingi.
Þorsteinn ýjaði að því að tímasetning umræðnanna hefði verið valin með það að markmiði að Sigmundur Davíð væri fjarverandi. Því neitaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sem sagði að tímasetningin hefði verið ákveðin í samráði við Miðflokkinn.
Sigmundur Davíð situr nú á Vorþingi Alþjóðaþingmannasambandsins, sem haldið er í Doha í Katar og stendur til miðvikudagsins 10. apríl. Með Sigmundi í för eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Helga Vala Helgadóttir.
Steingrímur J. í Vín
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er staddur í Vín á Ráðstefnu evrópskra þingforseta. Meðal þess sem þar er rætt er hvað Evrópusambandið getur gert til að tryggja stöðugleika og lýðræði í löndum Balkanskaga.
Sex þingmenn úr fimm flokkum sitja nú vorþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn sem lýkur í dag. Þá er Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, staddur í Strassborg ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, þar sem þau sitja þingfund Evrópuráðsþingsins sem stendur yfir frá 8 til 12. apríl.