Reykjavíkurborg greiddi rúman milljarð króna fyrir birtingu auglýsinga á árunum 2010-2019. Alls keypti borgin birtingar af um 500 birgjum, þar af keypti hún birtingar beint af fjölmiðlum fyrir 460 milljónir.
Þetta kemur fram í svari Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins.
Birtingar verkfræðistofu
Athygli vekur að borgin keypti auglýsingar af fyrirtækinu H.Pálssyni fyrir rúmar 57 milljónir á tímabilinu. Í svari Fjármálaskrifstofunnar segir að H. Pálsson sé verkfræðiskrifstofa sem sjái um auglýsingar á aðal- og deiliskipulagi borgarinnar. Samkvæmt heimasíðu sér það hinsvegar um þjónustu við ljósmyndara og prentiðnað.
Í frétt Kjarnans frá 2014 sagði Hákon Pálsson, framkvæmdastjóri H. Pálsson, að viðskipti borgarinnar við fyrirtækið byggi á langri hefð. Þar sagði hann fyrirtækið sé hefðbundið fyrirtæki í prentiðnaði og sjái um lögbundnar auglýsingar fyrir Reykjavíkurborg. Hann segir þar að fyrirtækið sinni auglýsingagerð og birtingaþjónustu fyrir nokkra aðra viðskiptavini, en þeir séu ekki margir.