Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með þann árangur sem náðst hefur í vinnumarkaðsmálum, meðal annars með gerð hinna svokölluðu lífskjarasamninga, og í hvaða farveg þau hafa fallið á þessu kjörtímabili. Hennar draumur sé að það verði hægt að taka það lengra með uppsetningu þjóðhagsráðs aðila vinnumarkaðarins, ríkis, sveitarfélaga og sveitarfélaga sem eigi að fjalla um bæði félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.
Þá er hún einnig ánægð með hversu vel hefur tekist til við að koma loftlagsmálum á dagskrá og fjármagna aðgerðir vegna þeirra.„Það er ekki nóg að gert. Ég veit það. En ég er samt ánægð með að stór skref hafa verið stigin hingað til.“
Þetta er meðal þess sem Katrín er ánægðust með að ríkisstjórn hennar hafi náð fram á þeim 16 mánuðum sem hún hefur starfað. Katrín var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni og ræddi þar meðal annars ríkisstjórnarsamstarfið.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Þeir flokkar sem mynda núverandi ríkisstjórn; Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, eru mjög ólíkir flokkar með afar ólíkar stefnur og áherslur. Því er um mjög óvenjulegt ríkisstjórnarsamstarf að ræða.
Aðspurð hvaða mál hafi verið erfiðust viðfangs þá svaraði Katrín ekki beint en sagði að þetta væri allt öðruvísi reynsla en sú ríkisstjórn sem hún sat í á árunum 2009 til 2013. Þar hafi flokkar starfað saman sem liggja mun nær hvorum öðrum, Vinstri græn og Samfylking. „Það er allt öðruvísi þegar ólíkir flokkar setjast saman og vinna í ríkisstjórn. Það eru mörg mál sem eru okkur erfið. En þetta er allt annars konar vinna. Maður þarf að hafa meira fyrir undirbúningi málanna.“