Flugfélagið WOW air seldi losunarheimildir sínir vegna útblásturs skömmu áður en að félagið varð gjaldþrota um síðustu mánaðamót. Félagið fékk um 400 milljónir króna fyrir heimildirnar en greiðsluna átti að nota til að standa straum af launagreiðslum marsmánaðar. Greiðslan barst þó ekki fyrr en nokkrum dögum eftir að félagið var gefið upp til gjaldþrotaskipta og rann því andvirði losunarheimildanna til þrotabúsins. Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag.
Fengu úthlutaðar ríflega 150 þúsund einingar fyrir 2019
Flugrekendur þurfa að afla sér losunarheimilda í tengslum við koltvísýringslosun sem til fellur vegna starfsemi þeirra. Slíkar heimildir ganga kaupum og sölum á markaði. Samkvæmt umfjöllun ViðskiptaMoggans hafði WOW air verið úthlutað 152.382 einingum fyrir árið í ár en hver eining jafngildir losun eins tonns af koltvísýringi. Ljóst er þó að WOW air hefði þurft að kaupa þær til baka síðar á árinu og var salan því hugsuð sem skammtímaaðgerð vegna þröngrar lausafjárstöðu.
Losunarheimildir sem WOW air hefur fengið úthlutaðar án endurgjalds á síðustu árum hafa sífellt orðið verðmætari en hver losunarheimild hefur hækkað úr rúmum 13 evrum í rúmar 24 evrur á einu ári.
Jafnframt kemur fram í umfjöllun ViðskiptaMoggans að WOW air hafði einnig tryggt sér endurgjaldslausar losunarheimildir upp á 152.382 einingar fyrir árið 2020 og auk þess hafi félagið átt von á 212.286 einingum fyrir árin 2021 tl 2023. Úthlutun losunarheimilda er þó bundin því að flugrekandi i hafi gilt flugrekstrarleyfi og verður þrotabúið því af þeim verðmætum, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans.