Kostnaður vegna þingmanna fyrstu tvo mánuði ársins er tíu milljónum króna lægri en fyrstu tvo mánuði síðasta árs. Séu biðlaun sem greidd voru fyrstu mánuði síðasta árs tekin með í reikninginn lækkaði kostnaðurinn um 43 milljónir. Samkvæmt upplýsingum af vef Alþingis virðist lækkunin, að teknu tilliti til biðlauna fyrrverandi þingmanna, að stærstum hluta koma til vegna lækkunar á kostnaði við ferðalög og lægri launakostnaðar.
Minni ferðakostnaður
Í byrjun seinasta árs voru endurgreiðslur til þingmanna vegna aksturs á eigin bíl í fyrsta skipti opinberaðar. Þá komst upp um mikinn kostnað sem þingmenn höfðu fengið endurgreiddan vegna aksturs á eigin bifreið. Í kjölfarið voru endurgreiðslurnar takmarkaðar við fimmtán þúsund kílómetra akstur á ári og ákvæði um hvenær þingmenn skuli notast við bílaleigubíla gerð skýrari.
Þetta hefur skilað sér í minni kostnaði fyrir Alþingi enda voru endurgreiðslur vegna aksturs 1,7 milljónum króna lægri á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs en þær voru fyrstu tvo mánuði 2018. Kjarninn hefur áður bent á að endurgreiðslurnar hafi lækkað eftir að farið var að birta upplýsingar um þær.
Þá greiddi Alþingi minna í ferðakostnað utanlands fyrir þingmenn. Þegar horft er til flokkanna „gisti- og fæðiskostnaðar, flugferðir utanlands, dagpeninga og annars ferðakostnaðar utanlands” nemur lækkunin samtals 2,4 milljónum á milli ára.
56 milljónir í biðlaun
Þingmenn sem falla út af þingi eiga rétt á biðlaunum í þrjá til sex mánuði eftir kosningar, eftir því hvað þeir hafa setið lengi á þingi. Í kosningunum 2017 féllu 19 þingmenn út af þingi og fengu þeir sem lengst höfðu setið á þingi greidd biðlaun fram í apríl 2018. Alls kostuðu biðlaun þingmanna Alþingi rúmlega 56 milljónir árið 2018, og lækkuðu um 82 milljónir á milli ára.