Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, samþykkti í nótt boð Evrópusambandsins um að fresta Brexit til 31 október næstkomandi. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, staðfesti þetta á Twitter í nótt. Frestunin er sveigjanleg og því geta Bretar yfirgefið sambandið fyrr náist samkomulag um útgönguna fyrir þann tíma. Frá þessu er greint á vef BBC.
Stendur til boða að yfirgefa sambandið fyrr
Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins funduðu í Brussel í gær til að ákveða mögulega framlengingu á frestun Brexit. Til stóð að Bretar yfirgæfu Evrópusambandinu á föstudaginn næstkomandi og þá án samnings. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundaði með leiðtogunum síðdegis en hennar tillaga var að fresta útgöngunni til 30 júní. Margir leiðtoganna töldu þann frest ekki nægan og var talað um að fresturinn yrði allt að ár. Donald Tusk tilkynnti síðan seint í gærkvöld Bretum væri boðið sex mánaða viðbótarfrestur.
Theresa May samþykkti frestinn en sagði í kjölfarið á blaðamannafundi að Bretland myndi stefna að því að yfirgefa sambandið sem allra fyrst. Sveigjanleiki frestunarinnar býður upp á þann möguleika að Bretar geti gengið úr sambandinu fyrir 1. júní ef breska þingið samþykkir útgönguleið á fyrstu þremur vikum maímánaðar.
Bretland verður að taka þátt í kosningum til Evrópuþings eða yfirgefa sambandið fyrir 1. júní
Donald Tusk sagði á blaðamannafundi í Brussel í nótt að framhaldið væri nú í höndum Breta. Bretar gætu enn staðfest samninginn sem þingið hefur nú þegar hafnað þrisvar og þannig yfirgefið sambandið. Hann sagði Breta jafnframt geta fundið aðrar leiðir eða dregið ákvörðun sína um útgönguna til baka. Bretar geta þó ekki breytt samningnum um úrgönguna.
Tusk sagði jafnframt framlengingin væri eins sveigjanleg og hann hafði átt von á en þó styttri en hann bjóst við. Að hans mati ætti hún þó að duga til að komast að bestu mögulegu lausn. Hann beindi að lokum þeim orðum til bresku þjóðarinnar að „vinsamlegast ekki láta þennan tíma fara til spillis.“
Samkvæmt umfjöllun BBC verður Bretland að taka þátt í kosningum til Evrópuþings eða að öðrum kosti yfirgefa sambandið þann 1. júní næstkomandi. Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að þó það gæti þótt undralegt að Bretar taki þátt í kosningum þá yrði að virða evrópsk lög.
EU27/UK have agreed a flexible extension until 31 October. This means additional six months for the UK to find the best possible solution.
— Donald Tusk (@eucopresident) April 10, 2019