Greinendur Landsbankans gera ráð fyrir að verðbólga muni aukast á næstu misserum, og muni mælast 3,2 prósent í apríl. Greinendur Arion banka spáðu því að verðbólgan færi í 3,3 prósent, en hún mælist nú 2,9 prósent.
Meginástæðan fyrir aukningu verðbólgunnar er talin vera hækkun á flugfargjöldum, en í spá Landsbankans er gert ráð fyrir að 20 prósent hækkun á flugfargjöldum muni ýta verðbólgunni upp á við.
„Við gerum ráð fyrir 20 prósent hækkun á flugfargjöldum til útlanda. Þróun flugfargjalda til útlanda í mars og apríl fer að mjög miklu leyti eftir því í hvorum mánuði páskarnir lenda. Páskarnir eru mikill ferðatími og eftirspurn og verð eftir flugi því hærra. Árin 2015, 2016 og 2018 féllu páskar í lok mars/byrjun apríl og var óveruleg breyting á þessum lið milli sömu mánaða. 2017 voru páskar vikuna eftir verðkönnunarvikuna og hækkuðu flugfargjöld til útlanda þá um tæp 15%. Í ár eru páskar tveimur vikum á eftir verðkönnunarviku Hagstofunnar sem skýrir þessa hækkun,“ segir í greiningu Landsbankans.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 4,5 prósent, en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Í greiningu Landsbankans er enn fremur fjallað um áhrif falls WOW air á þróun flugfargjalda, og hvernig Hagstofa Íslands hefur verið að vega þátt WOW air inn í vísitöluna. Síðustu ár hefur Hagstofan byggt verðmælingar sínar á flugi til útlanda á verði farmiða hjá Icelandair og WOW air. Hlutdeild WOW air var um þriðjungur af vísitölunni.
„Flugfargjöld eru tekin inn í vísitöluna mánuðinn sem flugið er flogið, en ekki mánuðinn sem flugið er keypt. Alla jafna hefði flug sem keypt var í febrúar og mars og flogið hefði í apríl átt að koma inn í vísitöluna núna. Hagstofan er í þeirri mjög svo sérstöku stöðu að vera með verðmælingar á flugi sem ekki verður flogið vegna gjaldþrots WOW air. Það er alls óvíst hvernig Hagstofan mun snúa sér í þessu og þá hvort að einungis verði miðað við verð á keyptum flugmiðum af Icelandair. Flugfargjöld til útlanda hafa lækkað mikið síðustu ár. Þannig var að meðaltali 12,8% ódýrara að fljúga til útlanda 2018 en 2017 og 15,5% ódýrara 2017 en 2016. Við eigum von á að þessi þróun gangi til baka á þessu ári sökum minna framboðs og minni samkeppni í kjölfar gjaldþrots WOW air en einnig vegna hækkunar olíuverðs,“ segir í greiningu Landsbankans.