Samkvæmt nýrri hagvaxtar- og verðbólguspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) mun hagvöxtur minnka í ellefu af fjórtán helstu viðskiptalöndum Íslands. Í spánni kemur fram að af helstu viðskiptalöndum Íslands muni hagvöxtur eingöngu aukast í Póllandi, Japan og Kína. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.
AGS lækkar hagvaxtarspá sína fyrir evrusvæðið úr 1,9 prósent niður í 1,3 prósent og hefur það mest áhrif. Mesta breyting frá síðustu spá í október síðastliðnum er þó hjá Svíþjóð en spá sjóðsins fyrir landið lækkar um eitt prósent.
AGS segir ennfremur að alþjóðahagkerfið hafi róast undanfarin misseri og hægt hafi á hagvexti. Meðal ástæðna fyrir því sé tollastríð milli Bandaríkjanna og Kína, auk vaxandi pólitískrar óvissu í mörgum löndum.
Lægri verðbólguspá fyrir evrusvæðið
Þó að AGS spái minni hagvexti í helstu viðskiptalöndum Íslands, hefur sjóðurinn lækkað verðbólguspá sína fyrir löndin og gerir ráð fyrir 1,9 prósent verðbólgu á tímabilinu 2019 til 2023. Lægri verðbólguspá skýrist helst af því að spáin fyrir evrusvæðið hefur lækkað um 0,4 prósent.
Hagfræðideildin segir að lægri verðbólga í þessum löndum komi til með að styðja við lægri verðbólgu hér á landi. Hún spáir því þó að verðbólga muni hækka hér á landi næstu mánuði og að hún verði 3,2 prósent í apríl.