Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús WOW air, þarf ekki að víkja sem skiptastjóri búsins. Þetta er niðurstaða Símonar Sigvaldasonar héraðsdómara en Arion banki hafði farið fram á að Sveini Andra yrði gert að víkja vegna vanhæfis. Mbl.is greinir frá.
Taldi bankinn að Sveinn hefði í störfum sínum í öðru máli sem tengdist Valitor, dótturfélagi Arion banka, farið langt út fyrir það sem eðlilegt mætti telja í störfum fyrir skjólstæðing sinn.
Samkvæmt mbl.is hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort niðurstöðunni verði skotið til Landsréttar en fulltrúi Arion banka segir að lögmenn bankans muni nú fara yfir niðurstöðuna.
Skipunin víða gagnrýnd
Eftir gjaldþrot WOW air var greint frá því að hæstaréttarlögmennirnir Þorsteinn Einarsson og Sveinn Andri Sveinsson hefðu verið skipaðir skiptastjórar þrotabúsins. Skipunin var víða gagnrýnd en stjórnir Lögmannafélags Íslands og Félags kvenna í lögmennsku höfðu meðal annars óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvaða verklagsreglur gilda í slíkum tilfellum.
Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í fjölmiðlum eftir skipunina að nauðsynlegt væri að gerðar væru breytingar á ógagnsæju ferli við skipun skiptastjóra í þrotabúum. Þær sögðu að svo virtist sem konum væri ekki treyst fyrir þessum stóru búum. Þá sögðu þær í samtali við mbl.is að gagnrýni á skipunina snerist frekar að því að verið væri að skipa Svein Andra skiptastjóra þar sem hann væri nú þegar skiptastjóri yfir stóru búi, EK 1923. Þær veltu því fyrir sér hvort heppilegt væri að lögmaður væri skiptastjóri yfir tveimur stórum þrotabúum samtímis líkt og raunin er í tilfelli Sveins Andra.
Auk þess bentu þær á að ágreiningsmál væri til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fjórir kröfuhafar hafa lagt fram kvörtun gegn Sveini Andra þar sem þau telja að hann hafi ekki upplýst kröfuhafa um mikinn áfallinn kostnað, meðal annars vegna málshöfðana gegn fyrrverandi eiganda félagsins og félaga í hans eigu.
Þórður Már Jónsson lögmaður skrifaði Facebook-færslu þar sem hann gagnrýndi skipunina og sagði hann Svein Andra fá fleiri þrotabú til skiptanna en aðrir. Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem skipaði skiptastjórana yfir þrotabú WOW air, vísaði því hins því alfarið á bug að hann hygli suma lögmenn umfram aðra við skipun skiptastjóra og hafnaði því jafnframt að hann útiloki konur frá slitabúum.