Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital keypti í gær tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka fyrir liðlega 6,5 milljarða króna. Seljandi hlutabréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing, stærsti hluthafi bankans. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Taconic Capital átti fyrir kaupin 9,99 prósenta hlut í Arion banka. Í gær keypti sjóðurinn síðan samanlagt 90,7 milljónir hluta í bankanum sem jafngildir tæplega fimm prósenta hlut miðað við útistandandi hlutafé bankans. Samkvæmt Fréttablaðinu voru kaupin gerð á genginu 72 krónur á hlut og var kaupverðið því ríflega 6,5 milljarðar króna. Eftir lokun markaða í gær stóð gegni hlutabréfa í bankanum í 77,4 krónum á hlut.
Greint var frá því í síðustu viku að stærsti eigandi Arion banka, Kaupþing ehf., hafi selt tíu prósenta hlut í bankanum. Virði hlutarins miðað við skráð gengi Arion banka þegar hann var seldur var um 15 milljarðar króna. Ekki var tilgreint hver kaupandinn er en Kjarninn greindi frá því á mánudag að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, væru komin inn á hluthafalista yfir stærstu eigendur Arion banka. LSR á 1,1 prósent hlut í bankanum og Kjarninn fékk það staðfest að hann hefði keypt þann hlut af Kaupþingi í vikunni á undan. Miðað við gengi bréfa í Arion banka í byrjun síðustu viku hefur kaupverðið verið rúmlega 1,6 milljarðar króna.
Þá keypti fjárfestingarfélagið Stoðir keypti einnig stóran hluta þeirra tíu prósenta sem Kaupþing seldi í síðustu viku. Í kjölfar kaupanna er fjárfestingafélagið orðið stærsti íslenski einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með um 4,22 prósenta hlut í Arion banka.
Tryggingafélagið TM, sem er líka á meðal eigenda Stoða, bætti einnig við sig hlut í útboði Kaupþings. Það gerði Vogun, félag að stærstum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar og fjölskyldu hans, sem seldu hlut sinn í HB Granda í fyrra, líka. Jafnframt á Sigurður Bollason, sem er líka fjórði stærsti hluthafi Kviku banka með 6,17 prósent eignarhlut, og félög tengd honum nú um tveggja prósenta hlut í Arion banka. Hluti þeirrar eignar er í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbank
Íslandsbanki var skráður með 2,84 prósent hlut í Arion banka síðasta mánudag en sá hlutur hefur nú minnkað niður í 2,54 prósent. Talsmaður Íslandsbanka vildi ekki upplýsa um hvort bankinn hefði verið að kaupa fyrir eigin bók eða fyrir hönd viðskiptavina þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það á mánudag.