Ný vefsíða um stofnun almenningshlutafélags sem gæti fjárfest í endurreisn WOW air var opnuð í dag. Á síðunni eru einstaklingar og fyrirtæki hvött til að leggja fram „lítilsháttar hlutafé“ í krafti fjöldans til að endurreisa WOW air eða stofna nýtt lággjalda flugfélag. Ekki er ljóst hver eða hverjir standa að baki síðunnar og væntalegs almenningshlutafélags en tekið er fram að þeir einstaklingar séu ekki tengdir WOW air á nokkurn hátt.
Þurfa 10 til 20 þúsund hluthafa
Greint var frá því í síðustu viku að Skúli hygðist endurvekja rekstur WOW air. Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW air eru því um þessar mundir að leita að fjármögnunar upp á 40 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,8 milljörðum króna, til að standa straum af kostnaði við upphaf rekstursins.
Á síðunni, hluthafi.com, segir að með hverjum deginum muni Skúla og hans fólki reynast erfiðara að endurreisa WOW. Þar af leiðandi sé nauðsynlegt að almenningur komi að stofnun almenningshlutafélags sem gæti fjárfest í nýju flugfélagi. Þá segir að ef náist að safna minnst 10 til 20 þúsund hluthöfum þá sé hægt að stofna almenningshlutafélag sem myndi fjárfesta í WOW air eða nýju lággjaldaflugfélagi.
„Við teljum að ef Skúli og hans besta fólk getur endurreist WOW Air þá eigum við sem einstaklingar í þessu landi að sameinast um að hjálpa til. Því hvetjum við einstaklinga og fyrirtæki til að leggja fram lítils háttar hlutafé í krafti fjöldans og tryggja rekstur WOW Air til framtíðar.“
Ekki er ljóst hver eða hverjir standa að baki síðunnar
Fjárráða einstaklingar og fyrirtæki geta skráð sig fyrir bindandi hlutafjárloforði í 90 daga á síðunni. Nýliðum í fjárfestingum er hins vegar ráðlagt að lofa ekki meira hlutafé en sem nemur einum fimmta af mánaðarlaunum. Engin nöfn aðstandenda koma hins vegar fram á vefsíðunni og heldur ekki hvað stefnt sé að því að safna miklu.
Einungis er tekið fram á síðunni að þeir einstaklingar sem standi að gerð síðunnar og væntanlegs almenningshlutafélags hafi ekki starfið hjá WOW air og séu ekki tengdir félaginu á nokkurn hátt. Aftur á móti viti þeir að ef samkeppni minnki þá tapi þeir til lengri tíma. „Þetta er ekkert nema tilraun til að stuðla að frekari samkeppni, endurreisa hagvöxt og tryggja kaupmátt, sem enginn þarf að skammast sín fyrir. Ef ekki tekst að endurreisa WOW Air og eða stofna nýtt lággjalda flugfélag þá verða engin hlutafjárloforð skuldbindandi og falla því niður ógild, “ segir á síðunni.