Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur komið á fót starfshópi sem ætlað er að koma með tillögur að því hvernig hægt sé að styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans. Stofnun hópsins er í samræmi við tillögur nefndar sem skilaði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu drögum að frumvarpi að lögum um félög til almannaheilla.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að regluverkið í kringum skattlagningu þriðja geirans hafi verið óbreytt í langan tíma. Með þriðja geiranum er átt við félög sem starfa hvorki innan opinbera geirans né einkageirans til að mynda íþróttafélög, björgunarsveitir, mannúðarsamtök og góðgerðafélög. Tillögur starfshópsins eiga að hvetja einstaklinga og lögaðila til að styðja enn frekar við starfsemi slíkra félaga.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans til fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að vegna þess hve mikilvæg félög til almannaheilla séu fyrir samfélagið tíðkist það innan aðildarríkja OECD að veita skattalegar ívilnanir vegna styrkja til félaga sem falla undir þriðja geirann. Í grunnskoðun sem fjármála- og efnahagsráðuneytið framkvæmdi hafi komið í ljós að skattaundanþágur vegna félaga í þriðja geiranum eru í ákveðnum tilfellum víðtækari í nágrannalöndunum en hér á landi.
Á Íslandi hefur lögaðilum verið heimilt að draga ákveðið hlutfall af rekstrartekjum sínum fyrir gjafir til félagasamtaka sem starfa til almannaheilla. Í svari ráðuneytisins kemur fram að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð séu hins vegar til staðar undanþágur vegna fjármagnstekna og gjafa einstaklinga til góðgerðarfélaga. Skoða á hvort að sambærilegt fyrirkomulag kæmi til með styrkja umhverfi slíkra félaga á Íslandi.
Frumvarpi ætlað að auka tiltrú
Tilgangur starfshópsins er í samræmi við tillögur nefndar sem skipuð var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök sem starfa að almannaheillum. Frumvarp þess efnis hefur nú verið lagt fyrir Alþingi en í greinargerð þess kemur fram að nefndin hafi talið rétt að í framhaldi af starfi nefndarinnar yrði hugað að samningu nýrra ákvæða sem vörðuðu skatt af aðföngum, gjafafé og arfi.
Í frumvarpinu er það meðal annars lagt til að stofnuð verði almannaheillafélagaskrá, sem yrði á forræði Ríkisskattstjóra og að opinberir aðilar geti gert það að skilyrði fyrir styrkjum og samningum að félag sem starfar að almannheillum sé skráð þar. Í tillögum nefndarinnar er það sagt vera eðlileg ráðstöfun í því að fylgjast með því í hvað opinberum fjármunum sem slíkir aðilar veita, sé varið.
Þar segir einnig að stofnun slíkrar skrár væri til þess fallin að auka tiltrú almennings á félagasamtökum sem starfi að almannaheillum. Í vinnu sinni hafði nefndin til hliðsjónar finnsk lög sem fjalla um almenn félög, en nefndina skipuðu meðal annars fulltrúar frá Almannheillum og Fræðaseturs þriðja geirans.
Sambærilegt frumvarp var lagt fyrir Alþingi árið 2015, en var ekki samþykkt. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna við það frumvarp, sem þau endurtaka núna, leggjast þau gegn því að skilyrði fyrir skráningu í almannaheillafélagaskrá, þar sem slíkt ákvæði gæti orðið að meginreglu í framtíðinni. Þau feli í sér stefnubreytingu sem gæti reynst íþyngjandi fyrir almannasamtök.
Ekki ljóst hvort að skráning sé skilyrði fyrir ívilnunum
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að starfshópurinn yfirfari nú skattalegar reglur sem varða þriðja geirann og skili svo af sér tillögum. Það er því ekki ljóst hvort að skilyrði fyrir því að félög sem falla undir þriðja geirann fái mögulegar skattalegar ívilnanir sé að þau verði skráð í almannaheillafélagaskrá, verði lögin samþykkt.
Starfshópnum á að skila tillögum sínum eigi síðar en 15. júní næstkomandi, en hann skipa Willum Þór Þórsson, Börkur Arnarson, Guðrún Inga Sívertsen, Guðrún Ögmundsdóttir, Helga Jónsdóttir og Óli Björn Kárason.