Meðalverð á bensínlítra hefur ekki verið hærra hérlendis frá haustmánuðum ársins 2014. Þetta kemur fram í samanburðartöflu á gasvaktin.is.
Meðalverð á bensínlítra var í gær 233,9 krónur og hefur hækkað skarpt undanfarna daga. Það er hæsta verð sem verið hefur frá því í október 2014 þegar meðalverðið náði að verða 236,43 krónur á lítra.
Samkvæmt tölum sem birtast á gasvaktin.is var hæsta verðið á landinu í gær á fjölmörgum stöðvum N1 um landið, þar sem lítrinn kostaði 237,1 krónur. Ódýrastur var lítrinn að venju hjá Costco í Kauptúni þar sem hann kostaði 199,9 krónur. Þeir sem ætla að versla þar verða þó að vera meðlimir í Costco, en það kostar 4.800 krónur á ári.
Eina bensínstöð landsins sem kemst nálægt Costco í verði var stöð Atlantsolíu við Kaplakrika, en hún er næsta bensínstöð við Costco. Þar kostaði lítrinn 204,9 krónur í gær en verð á öðrum Atlantsolíustöðvum er 230,2 krónur.
Munurinn á dýrasta bensínlítranum á Íslandi og þeim ódýrasta var því 37,2 krónur, eða 18,6 prósent.
Hæst fór bensínverð í 268,1 krónu hérlendis í apríl 2012.
Hærra heimsmarkaðsverð og veikari króna
Tvennt er ráðandi í þróun eldsneytisverðs á Íslandi. Annars vegar er það þróun á heimsmarkaðsverði á olíu, en það hefur hækkað skarpt á undanförnum vikum. Frá því á aðfangadag jóla 2018, þegar tunnan af hráolíu kostaði 50,47 dali, hefur verðið hækkað í 71,2 dali á tunnu, eða um 41 prósent.
Verð á hverjum lítra af hráolíu í íslenskum krónum er í dag 53,8 krónur.
Hins vegar fer verðið eftir gengi íslensku krónunnar, en það hefur hríðfallið undanfarna mánuði gagnvart dal. Í byrjun september í fyrra kostaði einn dalur til að mynda 107 krónur. Í dag kostar hann 120 krónur, eða 12,1 prósent meira.
Rúmlega helmingur til ríkisins
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 20,28 prósent af verði hans um miðjan apríl í sérstakt bensíngjald, 12,57 prósent í almennt bensíngjald og 3,79 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur.
Samanlagt fóru því 56 prósent af hverjum seldum bensínlítra til ríkisins vegna gjalda sem það innheimtir. Hæstur fór hlutur ríkisins í 60,26 prósent í júlí 2017.
Samkvæmt Bensínvakt Kjarnans, sem birt var á mánudag, var hlutur olíufélags í hverjum seldum lítra um miðjan þennan mánuð um 16 prósent. Hann hefur ekki verið lægri á þessu ári og í febrúar var hann til að mynda 22,83 prósent.