Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi brotið á mannréttindum Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi forstjóra Glitnis, með því að gera honum að greiða skatta og skattaálag og síðar ákæra hann og dæma hann fyrir skattalagabrot þrátt fyrir að Bjarni hafi þá þegar greitt skuld sína við skattinn. Frá þessu er greint í frétt RÚV.
Telur dómurinn að með þessu hafi Bjarna verið refsað tvisvar fyrir sama brot og er ríkinu gert að greiða Bjarna 5.000 evrur í bætur auk vaxta.
Skattrannsóknarstjóri tilkynnti Bjarna í ársbyrjun 2012 að skattar hans fyrir árin 2007 til 2009 hefðu verið endurákvarðaðir vegna vantalinna fjármagnstekna í tengslum við sölu hans á hlutabréfum sem hann eignaðist við starfslok hjá Glitni. Bjarni greiddi skattana auk 25 prósenta álags sem honum var gert að greiða.
Skattrannsóknarstjóri tilkynnti síðar málið til embættis sérstaks saksóknara sem ákærði Bjarna fyrir skattalagabrot. Hann var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi fyrir það brot og til að greiða 36 milljóna króna sekt. Hæstiréttur staðfesti síðan dóminn en þyngdi refsinguna í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Bjarni skaut málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi að með þessu hefði honum verið refsað tvisvar fyrir sama brot. Dómstóllinn féllst á þetta og hefur nú kveðið eins og áður segir á um að ríkið hafi brotið á Bjarna og verði því að greiða honum bætur.
Dómurinn sambærilegur dómi MDE í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn ríkinu
Þann 18. maí 2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirra niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur.
Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt.
Þegar Mannréttindadómstóllinn hafði komist að niðurstöðu þá þurfti að falla dómur í Hæstarétti um sambærilegt efni til að fram komi hver áhrif niðurstöðunnar verði á íslenska dómaframkvæmd. Sá dómur féll í lok september 2017.
Niðurstaðan hafði áhrif á fjöldamörg önnur mál og varð til þess að héraðssaksóknari þurfti að fella niður að að minnsta kosti 66 mál þar sem grunur var um að einstaklingar hefðu framið skattsvik. Stór hluti málanna snerist um einstaklinga sem geymdu fjármuni utan Íslands til að komast hjá skattgreiðslum.