Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að mikils pirrings gæti í baklandinu að ekki sé komið lengra með kjarasamninga en iðnaðarmenn funduðu með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara í gær. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir í samtali við blaðið að líkurnar hafi aukist að farið verði í aðgerðir. „Auðvitað, ef menn fara ekki að ná að semja sem fyrst þá mun það þýða það að menn fari í einhverjar aðgerðir. Markmið okkar er auðvitað að ná samningum en við munum grípa til einhverra aðgerða ef ekkert fer að breytast.“
Enn fremur segir Kristján Þórður erfitt að segja hvað það er sem skilur samningsaðilana að. „Þetta er fljótt að gerast þegar menn setjast niður og vinna almennilega. Það þarf ekkert að vera svo svakalega langt bil á milli manna.“
Kröfur iðnaðarmanna snúast aðallega um þrennt. Í fyrsta lagi vilja þeir aukinn kaupmátt launa, í öðru lagi styttingu vinnuvikunnar og í þriðja lagi breytingar á tilteknum ákvæðum kjarasamninga en samkvæmt Morgunblaðinu hafa nokkrir veikleikar komið fram í túlkun samninganna. Spurður um nánari útlistun á kröfunum, segir Kristján þær vera trúnaðarmál en ljóst sé að laun þurfi að hækka meira en verðlag.
Iðnaðarmenn slitu samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins þann 19. mars síðastliðinn en í síðustu viku virtist vera stutt í undirritun kjarasamninga hjá Ríkissáttasemjara.