Samkvæmt leiðréttum tölum Hagstofunnar um gistinætur hefur nýting á hótelherbergjum minnkað um 7,2 prósent miðað við febrúar í fyrra og febrúar í ár. Á sama tíma fjölgar hótelherbergjum.
Í febrúar síðastliðnum voru hótelherbergi á landinu 10.185 og hafði fjölgað sjö prósent frá því í febrúar árið áður. Best er nýtingin á höfuðborgarsvæðinu, en athygli vekur að herbergjanýtingin minnkar áberandi mikið á Suðurnesjum, eða um 14,6 prósent.
Þó að austurland sé eini landshlutinn þar sem nýting hótelherbergja eykst miðað við þessa tvo mánuði er herbergjanýtingin verst eða rétt innan við tuttugu prósent. Næst minnst er hún á norðurlandi þar sem hún er þrjátíu prósent.
Gistinóttum fækkar
Gistinóttum á hótelum fækkar um þrjú prósent miðað við febrúar í ár og febrúar 2018. Miðað við tímabilið mars til febrúar fjölgar þeim hins vegar um þrjú prósent. Mest fækkun á gistinóttum á milli ára er á Suðurnesjum en þar fækkar gistinóttum um þrettán prósent þó að þeim fjölgi um eitt prósent sé miðað við tólf mánaða tímabil. Á austurlandi, Vestfjörðum og vesturlandi fjölgar gistinóttum mikið miðað við febrúar í ár og í fyrra. Aftur á móti fækkar gistinóttum á austurlandi um fimm prósent sé horft til tólf mánaða.
Í gistináttagrunni Hagstofunnar eru skráðar 519.000 gistinætur í febrúar síðastliðnum en voru 526.000 í sama mánuði í fyrra. Langflestar gistinætur voru á hótelum og gistiheimilum, en um 100.000 notuðust við annarskonar gisti úrræði.