Verð á tunnu af hráolíu hefur hækkað mikið á skömmum tíma, eða um 30 prósent á síðustu tveimur mánuðum. Sé horft fjóra mánuði aftur í tímann er hækkunin rúmlega 40 prósent.
Verðið á tunnunni er nú 64 Bandaríkjadalir en það var um 42 Bandaríkjadalir í byrjun ársins.
Miklar sveiflur hafa einkennt heimsmarkað með olíu undanfarin misseri, en þegar það fór hæst á síðasta ári, í október, fór það í 75 Bandaríkjadali. Það hrundi síðan niður undir lok ársins og var rúmlega 40 Bandaríkjadalir, samkvæmt markaðsupplýsingavef Wall Street Journal.
Þessar miklu sveiflur upp og niður hafa komið fram, meðal annars í kjölfar yfirlýsinga olíuframleiðsluríkja um að ýmist draga úr framleiðslu eða auka hana.
Saudi Aramco’s $111,100,000,000 profit in 2018 easily dwarfed all other businesses on the planet https://t.co/ks838cGgF8
— Bloomberg (@business) April 19, 2019
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað eftir því að olíuframleiðsluríkin í OPEC samtökunum, auki framleiðslu á olíu til að verðið lækki og haldi þannig verðbólgu í skefjum.
Fyrir Ísland getur hröð hækkun olíu skilað sér í aukinni verðbólgu, meðal annars vegna hækkunar á rekstrarkostnaði fyrirtækja og hækkunar á framleiðslu- og flutningskostnaði.
Verðbólga mælist nú 2,9 prósent en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent. Meginvextir Seðlabanka Íslands eru 4,5 prósent.
Spár greinenda gera ráð fyrir að verðbólga muni aukast á næstu misserum, meðal annars vegna hækkandi flugfargjalda, að því er fram kemur í nýlegum spá greiningardeilda Arion banka og Landsbankans.