365 miðlar hf., félag skráð í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hefur farið fram á að boðað verði til hluthafafundar í Skeljungi til að setja stjórnarkjör á dagskrá. Þetta gerðist eftir að 365 miðlar keyptu, beint og í gegnum tvo framvirka samninga, alls 10,01 prósent hlut í Skeljungi.
Í tilkynningu frá Skeljungi til Kauphallar Íslands segir að 365 miðlar telji „að vegna talsverðra breytinga sem orðið hafa í hluthafahópi félagsins nýverið sé rétt að umboð stjórnar verði endurnýjað.“
Samkvæmt lögum um hlutafélög skal boða skuli til hluthafafundar ef hluthafar, sem ráða yfir minnst fimm prósent hlutafjárins, krefjast þess skriflega og greina um ástæður þess. Samkvæmt sömu greinum hefur stjórn 14 daga til að senda út fundarboð. Í tilkynningunni frá Skeljungi kemur fram að stjórn félagsins muni nú undirbúa boðun hluthafafundar.
365 miðlar voru einu sinni fjölmiðlafyrirtæki en er nú að mestu fjárfestingarfélag. Félagið seldi stærstan hluta fjölmiðlaveldis síns til Sýnar í lok árs 2017 og fékk meðal annars greitt fyrir með hlutafé, en hélt eftir Fréttablaðinu. Það er nú rekið af Torgi ehf., dótturfélag 365 miðla.
Reyndu að komast í stjórn Haga
Ingibjörg er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hann tekur virkan þátt í fjárfestingaverkefnum félaga eiginkonu sinnar. Eftir að félög hennar höfðu keypt alls 4,3 prósent hlut í Högum fyrr á þessu ári sóttist Jón Ásgeir eftir því að verða kjörinn í stjórn félagsins í janúar síðastliðnum.
Viðmælendur Kjarnans segja að hann hafi reynt að afla stuðnings víða en ekki hlotið náð fyrir tilnefningarnefnd Haga, sem tilnefndi sínar í stjórn að mestu leyti á samráði við stærstu hluthafa. Stærstu hluthafar Haga eru stærstu lífeyrissjóðir landsins (Gildi, LSR, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Birta, Stapi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda eiga samtals 52 prósent í Högum) og tveir sjávarútvegsrisar, Samherji og FISK-seafood, útgerðararmur Kaupfélags Skagfirðinga.
Þegar ljóst var að Jón Ásgeir var ekki á meðal þeirra sem tilnefndir voru í stjórnina hófst barátta hans fyrir því að þrýsta á kjör sitt með öðrum hætti, annars vegar með því að vísa til kosta sinna og hins vegar með því að reyna að knýja fram margfeldiskosningu.
Það tókst ekki heldur. Í kjölfarið seldu 365 miðlar sig niður í Högum og keyptu stóran hlut í Skeljungi. Nú vill félagið fá stjórnarmann þar.
Stærstu eigendur Skeljungs utan 365 miðla eru að mörgu leyti sömu lífeyrissjóðir og eru stórir eigendur í Högum, að Lífeyrissjóði verzlunarmanna frátöldum.