365 miðlar hf., félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, verður stærsti einstaki eigandi Skeljungs með 10,01 prósent hlut í nánustu framtíð. Þetta kemur í tilkynningu til Kauphallar.
Samkvæmt tilkynningunni eiga 365 miðlar 4,32 prósent hlut í Skeljungi en auk þess hefur félagið gert tvo framvirka samninga um kaup á hlutum í félaginu fyrir samtals 5,69 prósent.
Annar framvirki samningurinn er upp á 4,65 prósent hlut, var gerður 11. apríl síðastliðinn og gildir til 30. apríl. Hinn er upp á 1,05 prósent hlut, var gerður 17. apríl og gildir til 24. maí.
Markaðsvirði Skeljungs er um 16,5 milljarðar króna og því er virði hlutarins sem 365 miðlar gætu eignast tæplega 1,7 milljarðar króna gangi viðskiptin öll eftir. Vefur Fréttablaðsins greinir frá því að hluti viðskiptanna fari í gegnum fjármögnun hjá Kviku banka. Í dag er Gildi lífeyrissjóður skráður stærsti eigandi Skeljungs með 9,2 prósent hlut.
365 miðlar voru einu sinni fjölmiðlafyrirtæki en er nú að mestu fjárfestingarfélag. Félagið seldi stærstan hluta fjölmiðlaveldis síns til Sýnar í lok árs 2017 og fékk meðal annars greitt fyrir með hlutafé, en hélt eftir Fréttablaðinu. Það er nú rekið af Torgi ehf., dótturfélag 365 miðla.
Í október 2018 seldu 365 miðlar allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna og keyptu í staðinn hluti í Högum. Um tíma nam eignarhlutur 365 miðla tæplega fjórum prósentum en á nýjasta birta hluthafalista Haga er félagið ekki á meðal 20 stærstu hluthafa.