Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í 17. sæti yfir launahæstu þjóðarleiðtoga heimsins, samkvæmt úttekt bandaríska dagblaðsins USA Today. Hún er ein af fjórum konum á listanum en listinn miðar við þá einstaklinga sem teljast handhafar framkvæmdavaldsins í hverju landi fyrir sig. Katrín er ofar á listanum en forsætisráðherra Frakklands, Írlands og forseti Gvatemala. Hins vegar eru forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar með hærri laun en Katrín og sitja í 15. og 16. sæti. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu.
Ein af fjórum konum
Úttekt blaðsins miðar við laun hvers þjóðarleiðtoga á árinu 2018 og nema árleg laun leiðtoganna allt frá 200.000 Bandaríkjadölum til rúmlega 1,6 milljónir Bandaríkjadala en launin eru gefin upp miðað við gengi 13. apríl. Árslaun Katrínar samkvæmt listanum voru 242.619 Bandaríkjadalir í fyrra eða rúmar 29 milljónir íslenskra króna. Í greininni segir að ef launum Katrínar væri deilt á alla Íslendinga myndi hver Íslendingur fá í sinn hlut 73 sent. Jafnframt er greint frá því að forseti Íslands fái hærri laun en forsætisráðherra en að forsetinn hafi takmörkuð völd og að hlutverk hans sé að mestu leyti hátíðlegt.
Fyrir ofan Katrínu á listanum eru forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur er sagður vera með 249.774 Bandaríkjadali á ári í laun og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar með 244.615 Bandaríkjadali í laun á síðasta ári. Hæstlaunaði þjóðarleiðtoginn á listanum er hins vegar Lee Hsien Loong forsætisráðherra Singapúr en hann var með 1.610.000 Bandaríkjadali í árslaun á síðasta ári sem er ígildi þess að hann hafi verið með rúmar 13 milljónir króna í mánaðarlaun.
Þá er Carrie Lam, leiðtogi kínverska sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong, launahæsta konan á listanum en hún situr í öðru sæti með 568.400 Bandaríkjadali í árslaun, eða sem nemur rúmum 55 milljónum íslenskra króna. Þá er þrír aðrir kvenleiðtogar á listanum að meðtalinni Katrínu, það eru Angela Merkel Þýskalandskanslari og Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjáland, en þær skipa sjötta og sjöunda sæti listans.
Í hópi áhrifamikilla kvenna sem stuðla að auknu kynjajafnrétti
Í febrúar var Katrín valin ein af tuttugu konum sem skarað hafa fram úr og barist fyrir jöfnum hlut kynsystra sinna um allan heim, af viðskiptatímaritinu CEO Magazine. Í umfjöllun tímaritsins var greint frá því að Katrín Jakobsdóttir hefði sterkar skoðanir á réttindum kvenna og umhverfismálum.
Fjallað var um hvernig Katrín sé önnur konan hér á landi til að gegna embætti forsætisráðherra en hún er jafnframt þriðja yngsta manneskjan til að gegna þessu valdamesta embætti á Íslandi. Þá var hún sögð stefna að því að útrýma kynbundnum launamun á Íslandi innan fimm ára og að hún hyggst breyta lögum um fæðingarorlof hér á landi.