Leiðandi hagvísir Analytica fyrir mars síðastliðinn lækkar um tæp fjögur prósent miðað við mars í fyrra. Þetta er fjórtándi mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar og segir í inngangi hagvísisins að það beri vott um hægari vöxt landsframleiðslu og samdrátt framundan. Uppleitni landsframleiðslu, sé litið til lengri tíma, er þó sögð vera sterk.
Hagvísirinn, sem er ætlað að gefa vísbendingar um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum, er reiknaður út frá sex undirþáttum. Þessir þættir eru aflamagn, debetkortavelta, ferðamannafjöldi, heimsvísitala hlutabréfa, væntingavísitala Gallup og innflutningur. Allir sex undirþættirnir lækka á milli ára, en fjórir af sex lækka á milli mánaða.
Óvissa í ferðaþjónustu ógnar hagvexti
Samkvæmt hagvísinum er óvissa í ferðaþjónustu og kjaramálum helst sögð ógna landsframleiðslu til lengri tíma litið. Í tölum um ferðamannafjölda er í hagvísinum miðað við komur ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
Staðan í alþjóðastjórnmálum er sögð vera sá ytri áhættuþáttur sem helst gæti ógnað hagvexti á Íslandi. Yngvi Harðarson, hagfræðingur hjá Analytica, segir í samtali við Kjarnann að þar sé verið að vísa til almennrar óvissu í alþjóðastjórnmálum í dag. Viðskiptadeila Bandaríkjanna við Kína vegi þó þungt og staða Brexit-deilunnar hjálpi ekki til.