„Það mátti gera ráð fyrir því fyrir fram að í þeim hópi myndi Samkeppniseftirlitið kannski líta út fyrir, eða koma illa út, í samanburði einfaldlega vegna þess að Samkeppniseftirlitið er frábrugðið öðrum stofnunum sem spurt var um vegna þess að við erum brotaeftirlit. Þar sem er vesen, þar erum við.“
Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur verður klukkan 21:00 í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Þar ræða þeir meðal annars um nýbirta könnun sem ráðgjafanefnd um opinberar eftirlitsreglur lét Maskínu gera til að kanna eftirlitsmenninguna á Íslandi, og var birt nýverið. Í niðurstöðunum kemur fram að af mati á 16 mismunandi eftirlitsstofnunum kom Samkeppniseftirlitið hvað verst út.
Páll Gunnar segir að það sé jákvætt að kannanir sem þessar séu gerðar. „Við erum alltaf að hlusta eftir því hvernig hægt sé að gera hlutina betur. Í þessi tilviki þá er einhver hópur fyrirtækja á einhverjum lista hjá Samtökum atvinnulífsins spurður. Það eru allnokkrar eftirlitsstofnanir þarna undir.“
Hann segir að það hafi valdið sér vonbrigðum hversu takmörkuð könnunin sé. „Það kemur í ljósi að 21 fyrirtæki af þessum hópi segist hafa verið í samskiptum við samkeppniseftirlitið á síðustu tólf mánuðum. Það er afar litill hópur. Okkur sýnist að á árinu 2018 höfum við verið í formlegum samskiptum við upp undur 450-500 fyrirtækið.“
Þorri þeirra samskipta séu góð. „Þannig að það er erfitt að sjá hvað sé hægt að lesa út úr þessu, allavega í augnablikinu.“