Reikna má með að heildargreiðslur VR og Eflingar úr vinnudeilusjóðum vegna verkfallanna í mars síðastliðnum geti numið á bilinu tuttugu til þrjátíu milljónir samanlagt. VR hefur nú þegar greitt út 8,7 milljónir króna úr vinnudeilusjóði og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við Kjarnann að reiknað sé með að Efling þurfi að greiða á bilinu tíu til tuttugu milljónir. Endanlegar tölur liggja þó ekki fyrir hjá félögunum þar sem frestur til að sækja um greiðslur er ekki liðinn.
Flestar umsóknir samþykktar
Samkvæmt svari Odds Gunnars Jónssonar, forstöðumanns fjármála- og rekstrarsviðs VR, við fyrirspurn Kjarnans er opið fyrir umsóknir í vinnudeilusjóð VR til fimmtánda maí næstkomandi og því liggi ekki fyrir hversu mikið félagið þurfi að greiða út. Í apríl sé hins vegar búið að greiða út 8,7 milljónir króna og þar af hafi 5,5 milljónir verið greiddar til félagsmanna en 3,2 milljónir hafi farið til ríkissjóðs sem staðgreiðsla skatta.
Viðar segir að Efling þurfi líklega að greiða tíu til tuttugu milljónir úr verkfallssjóði en það liggi þó ekki endanlega fyrir. Hann segir að langflestar umsóknir um greiðslur úr verkfallssjóði félagsins hafi verið samþykktar og að ekkert hafi komið þar á óvart. Greiðslurnar segir hann ekki vera mikið högg fyrir félagið, verkfallssjóðurinn sé vel stæður og að áætlanagerð félagsins hafi náð yfir að farið yrði í fleiri verkfallsaðgerðir. Hins vegar sé það alltaf svo að ákveðin óvissa ríki þegar farið sé í verkfallsaðgerðir.
Ársreikningur Eflingar fyrir árið 2018 liggur ekki fyrir en í lok árs 2017 voru innistæður hans rúmlega 2,6 milljarðar króna. Í ársreikningi VR fyrir 2018 sem birtur er í ársskýrslu félagsins kemur fram að í vinnudeilusjóði VR voru í lok ársins 3,8 milljarðar. Það er því ljóst að greiðslurnar eru óverulegar og ættu ekki að hafa áhrif á stöðu sjóðanna.
Mismunandi aðferðir við kynningar
Munur er á því hvernig félögin tvö auglýstu greiðslur úr vinnudeilusjóðum sínum. Samkvæmt Viðari var tilhögun greiðslna úr vinnudeilusjóði Eflingar kynnt meðfram atkvæðagreiðslum um verkföll og var meðal annars reynt að nálgast þá starfsmenn sem verkföllin náðu til í gegnum trúnaðarmenn þeirra vinnustaða sem áttu í hlut.
VR sendi hins vegar tölvupósta á þá félagsmenn fyrirtækjanna sem höfðu skráð netfang hjá félaginu. Áður en það var gert voru félagsmenn hvattir til að uppfæra eða skrá netföng sín á sérstakri verkfallssíðu félagsins. Þá var einnig auglýst á samfélagsmiðlum í aðdraganda verkfalla og á meðan á þeim stóð.
Kjarasamningar félaganna við Samtök atvinnulífsins voru samþykktir með ríflega 80 prósentum greiddra atkvæða. Í atkvæðagreiðslu Eflingar var kjörsókn tíu prósent en tæplega 21 prósent hjá VR.