Ekkert hefur fundist sem styður það að gögnum hafi verið lekið frá Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, eða Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóra á þeim tíma, til RÚV, í tengslum við Samherjamálið.
Þetta kemur fram í ítarlegu svari Seðlabanka Íslands við spurningum Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í tengslum við Samherjamálið svonefnda og athugasemdir Umboðsmanns Alþingis við stjórnsýslu Seðlabankans.
Í svari Seðlabankans segir að ekkert hafi fundist sem „styður við að Ríkisútvarpinu hafi verið veittar trúnaðarupplýsingar [um fyrirhugaða húsleit hjá Samherja] og að seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri hafi haft um það vitneskju og hvað þá heimilað.“
Stór hluti af bréfi Seðlabankans til forsætisráðherra er leyndur, og kemur ekki fram hvað þar kemur fram.
Bréfið er 56 blaðsíður, en á síðum 31 til 44 eru engar upplýsingar, og er þeim upplýsingum þannig haldið leyndum. Þar er fjallað um greinargerð bankaráðs Seðlabankans vegna Samherjamálsins.
Forsætsráðherra kallaði eftir skýringum frá Seðlabankanum vegna þriggja meginatriða, með bréfi sínu 15. mars.
Hin tvö atriðin sem forsætisráðherra óskaði nánari skýringa á tengjast úrbótum á stjórnsýslu Seðlabankans, í ljósi dóma Hæstaréttar meðal annars, og að fyrirliggjandi afstöðu ríkissaksóknara frá árinu 2014 til gildis refsiheimilda, sem ítarlega var fjallað um í áliti Umboðsmanns Alþingis.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn stærsti eigandi Samherja ásamt Kristjáni Vilhelmssyni, hefur gagnrýnt Seðlabankann harðlega, alveg frá því að bankinn framkvæmdi húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins vorið 2012. Dómsniðurstöður hafa fallið Samherja í hag, og hefur Þorsteinn Már sagt álit Umboðsmanns vera „enn einn sigurinn“ fyrir Samherja í deilum fyrirtækisins við Seðlabankann.