Bandarísk flugmálayfirvöld eru sögð líkleg til að veita samþykki fyrir notkun á 737 Max vélum Boeing, í kjölfar fundar með fulltrúum flugmálayfirvalda víðs vegar um heiminn, hinn 23. maí næstkomandi.
Ef „ekkert óvænt gerist“ - eins og það er orðað í umfjöllun Seattle Times - þá gæti það þýtt að vélarnar verði tilbúnar til notkunar í lok maí eða byrjun júní.
Umfjöllun Seattle Times um vandamál tengd Boeing í kjölfar flugslysanna 29. október í Indónesíu og 13. mars í Eþíópíu, þegar samtals 346 létust, eftir að 737 Max vélarnar toguðust til jarðar fljótlega eftir flugtak, hefur verið leiðandi, en Boeing er með rætur sínar í Renton, í útjaðri Seattle.
Starfsmenn eru þar um 80 þúsund, og hefur hjartað í starfsemi þessa stærsta útflutningsfyrirtækis Bandaríkjanna verið á Seattle svæðinu frá stofnun fyrir 103 árum.
Í kjölfar seinna slyssins hafa Max vélarnar verið kyrrsettar og notkun á þeim bönnuð, á meðan rannsókn hefur staðið yfir. Rannsóknin hefur meðal annars beinst að MCAS-kerfi í flugvélunum, sem á að sporna gegn ofrisi, en lokaniðurstöður rannsóknarnefnda flugslysa í Indónesíu og Eþíópíu liggja ekki fyrir.
Boeing ítrekaði á uppgjörsfundi fyrr í vikunni, að vélarnar væru öruggar og það væri mat Boeing, eftir ítarlega skoðun, að ekki þyrfti að breyta hönnun á vélunum.
Kyrrsetning á Max vélunum hefur skapað víðtæk vandamál fyrir marga af viðskiptavinum Boeing, þar á meðal Icelandair, en þrjár af vélum félagsins hafa verið kyrrsettar. Félagið gerir ráð fyrir að kyrrsetningin gildi til 16. júní, samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallar.
Það verður á valdi flugmálayfirvalda á hverju svæði fyrir sig, að ákveða hvenær hægt verður að taka vélarnar í notkun, en búast má við samræmdum aðgerðum í þessum efnum, vegna þess hve víðtæk áhrifin af því að kyrrsetja ákveðnar tegundir véla í farþegaflugi geta verið.
Rekstur Icelandair hefur gengið nokkuð erfiðlega að undanförnu, en félagið tapaði 6,8 milljörðum síðasta ársfjórðungi ársins í fyrra. Eigið fé félagsins var um 55 milljarðar króna í lok árs og skuldirnar 110 milljarðar.
Uppgjör félagsins vegna reksturst á fyrstu þremur mánuðum ársins verður birt 3. maí næstkomandi.