Eimskip hefur tilkynnt um skipulagsbreytingar hjá félaginu sem taka gildi 2. maí næstkomandi. Þær snúa að því að samþætta hluta af stoðeiningum Eimskips í miðlægar einingar og skerpa á áherslum í þjónustu við viðskiptavini.
Alls mun fækka um 15 stöðugildi hjá Eimskip og dótturfélaginu TVG-Zimsen við þessar breytingar.
Í tilkynningu vegna þessa segir að sem dæmi um þær aðgerðir sem verið sé að ráðast í muni þrjár mismunandi akstursstýringardeildir sameinast í eina einingu.
Þar segir enn fremur að talsverðar breytingar verði hjá TVG-Zimsen þar sem hluti stoðeininga þess dótturfélags Eimskips muni sameinast sambærilegum einingum hjá móðurfélaginu. Þá mun TVG-Zimsen flytja starfsemi sína yfir í Vöruhótel Eimskips síðar í sumar en verður eftir sem áður rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki Eimskips.
Í tilkynningunni segir að ,markmið breytinganna sé „að ná fram hagræðingu í rekstri, auka arðsemi og styrkja stoðir félagsins enn frekar til framtíðar.“
Töluverðar sviptingar hafa verið hjá Eimskip síðustu misseri. Samherji keypti um fjórðungshlut í Eimskip í fyrrasumar og í september 2018 og á nú 27,1 prósent hlut sem gerir sjávarútvegsrisann að stærsta einstaka hluthafa Eimskips. Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og eins eiganda Samherja, tók skömmu síðar við sem stjórnarformaður.
Í nóvember 2018 var tilkynnt um að Gylfi Sigfússon myndi láta af störfum sem forstjóri félagsins og í janúar síðastliðnum var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi stjórnarformannsins og eigenda Samherja, ráðinn í starf forstjóra Eimskips. Hann hafði starfað hjá Íslandsbanka í tuttugu ár og síðast verið framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfestingasviðs bankans.
Tveimur dögum síðar var send út tilkynning um umfangsmiklar skipulagsbreytingar hjá Eimskip. Á sama tíma var greint frá því að laun nýs forstjóra félagsins myndu „taka mið af þeirri áherslu stjórnar að lækka þurfi kostnað félagsins“. Gylfi Sigfússon var með 5,6 milljónir króna í laun á mánuði á árinu 2017.
Afkoma Eimskips var undir væntingum í fyrra. Hagnaður félagsins var rétt rúmur milljarður króna, en hafði verið um 2,3 milljarðar króna á árinu 2017. Þótt tekjur Eimskips hefðu aukist þá minnkaði framlegð, kostnaður jókst og afskrftir drógu afkomu ársins niður.