Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir að það sé mat sambandsins að þegar hafi verið gengið of langt í markaðsvæðingu grunnstoða. Það sé „feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt.“
Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um þingsályktunartillögu um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um orkumál, oftast kallað þriðji orkupakkinn.
Í umsögn ASÍ segir að málið hafi verið afar umdeilt meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa og yrði ekki slitið úr samhengi við umræðuna um hvaða grunnstoðir eigi að vera í samfélagslegri eigu og undanskildar markaðslögmálunum.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sé skýrt tekið fram að samkvæmt orkupakka 1 og orkupakka 2 sé almennt litið á orku eins og hverja aðra vöru sem samkeppnislögmál gildi um. Það hafi gerst með innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög að vinnsla og sala raforku skyldi rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrunni.
Að mati ASÍ er raforka er grunnþjónusta og ætti ekki að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. „Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.“
Að mati ASÍ sé það forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að „við njótum öll arðs af nýtingu auðildanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi.“
Undir umsögnina skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Sagði orkupakkamálið lykta af sérhagsmunapoti
Drífa er ekki fyrsti verkalýðsleiðtoginn sem blandar sér í umræðu um orkupakkamálið. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrir helgi að verkalýðshreyfingin hafni því að hægt sé að taka stórar og umdeildar ákvarðanir, á borð við þriðja orkupakkann, án þess að fullkomið traust og sátt ríki um málið.
Hann sagði málið óneitanlega lykta af sérhagsmunapoti og spurði jafnframt hvort Íslendingar geti treyst kjörnum fulltrúum til að taka svo stórar ákvarðanir sem snúa að orkumálum þjóðarinnar. „Svona miðað við allt sem á undan er gengið?“
Ragnar Þór telur að „hin ofsafengnu viðbrögð þekktra hagsmunaafla við réttmætum spurningum og gagnrýni“ gefi svo sannarlega tilefni til að staldra við.