„Það eru ótal tækifæri. Ísland er lítið land. Við erum þróað hagkerfi með sterkt velferðarkerfi og alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt það að áhrif sjálfvirknivæðingar verða aðeins minni á vinnumarkað hjá þessum ríkjum en öðrum ríkjum.“
Þetta er meðal þess sem Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og formaður starfshóps forsætisráðherra sem vann og birti skýrslu sem bar heitið „Ísland og fjórða iðnbyltingin“ í byrjun síðasta mánaðar, segir í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans.
Viðtalið birtist í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur var í gær.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Þar segir Huginn að Ísland búi yfir sterkum tæknilegum innviðum sem landsmenn ættu að geta nýtt sér til að ná árangri í fjórðu iðnbyltingunni. „Að auka verðmætasköpun í samfélaginu, það á að geta tekist vel til þar.“
Hann bendir á að til þessa hafi Íslendingum gengið vel að nýta sér tæknibreytingar. Það sjáist einfaldlega á þeim mikla árangri sem landið hefur náð á síðustu 120 árum. Þannig að við getum alveg haldið áfram. En það eru líka fjöldamargar áskoranir.“
Á örfáum árum hafi símar orðið ómissandi tæki í nútímasamfélaginu og haft gríðarleg áhrif á líf okkar, ekki bara út frá atvinnulífinu heldur einnig vegna samfélagslegra áhrifa á stjórnmál, lýðræði og fjölmiðla. „Fjölmiðlar hafa gjörbreyst á örfáum árum, meðal annars með tilkomu samfélagsmiðla og snjallsíma. Þetta er þetta uppbrot sem við ræðum meðal annars í skýrslunni.“
Í starfshópnum sem tók skýrsluna saman voru auk Hugins þau Lilja Dögg Jónsdóttir, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður H. Magnúsdóttir og Kristinn R. Þórisson.