Samfélagsmiðlarisinn Facebook vinnur nú að því að smíða eigin greiðslukerfi fyrir rafmyntir. Frá þessu var greint í Wall Street Journal í dag, en með slíku kerfi er talið líklegt að Facebook geti stigið en stærra skref en nú þegar hefur verið stigið inn á smásölu- og fjármálamarkað.
Lítið hefur verið gefið upp um nákvæmar tæknilegar lausnir, en fyrirtækið hefur undanfarin misseri unnið með fjármálafyrirtækjum að því að útfæra þessar nýju lausnir, að því er fram kemur í Wall Street Journal.
Facebook hefur gengið í gegnum erfiða tíma undanfarin ár, samhliða vaxandi óánægju með það hvernig miðillinn hefur þróast, og hvernig hann hefur verið nýttu af hagsmunaðilum, meðal annars í stjórnmálum. Þá hafa spjót staðið á Facebook vegna síendurtekinna atvika þar sem fyrirtæki hafa komist yfir gögn notenda, án leyfis.
What could possibly go wrong?
— Wendy Siegelman (@WendySiegelman) May 2, 2019
Facebook Building Cryptocurrency-Based Payments System - Social-media giant is seeking $1 billion in investments and recruiting dozens of financial firms and online merchants to help launch payments platformhttps://t.co/rlndTib1Ir
Facebook tengir saman meira en tvo milljarða manna með samfélagsneti sínu, en stofnandinn og forstjórinn, Mark Zuckerberg, hefur sagt að hann vilji að Facebook verði jákvætt afl í lífi fólks, fremur en að það leiði til sundrungar og neikvæðni.
Markaðsvirði félagsins er í dag 549 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 67 þúsund milljörðum króna. Þrátt fyrir að Facebook hafi verið mikið í fréttum, ekki síst vegna þess hve illa hefur gengið að halda gögnum notenda öruggum, hefur rekstur félagsins gengið vel. Í fyrra voru heildartekjurnar 55,8 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6.800 milljörðum króna. Það var um 37 prósent aukning frá árinu á undan.