Fréttamiðillinn The Guardian skilaði rekstrarhagnaði fyrir fjárhagsárið 2018 til 2019 upp á 800.000 pund eða 127,6 milljónir íslenskra króna, samanborið við 57 milljóna punda tap síðustu þrjú árin þar á undan. Frá þessu er greint í frétt The Guardian í dag.
Þetta er í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem miðillinn nær að vera hinum megin við núllið en í fréttinni segir að ástæðan fyrir breyttri fjárhagsstöðu sé metaðsókn í vefinn, minni kostnaður og aukin fjárframlög frá lesendunum sjálfum.
Samkvæmt miðlinum styrkja 655.000 manns hann mánaðarlega en ásamt því höfðu 300.000 manns styrkt hann í eitt skipti á síðasta ári.
Athygli vekur að lestur á vefmiðlinum hefur aukist til muna síðustu þrjú árin, úr 790 milljónum flettingum á mánuði í janúar 2016 í 1,35 milljarð flettinga í mars 2019.
Katharine Viner, sem gegnir ritstjórastöðu hjá The Guardian, segir að á tímum óvenjulegs pólitísks og efnahagslegs umróts hafi þörf fyrir góða og sjálfstæða blaðamennsku og fréttaskýringar aldrei verið meiri.