Ísland var dýrasti áfangastaður Evrópu árið 2017 og greiddi ferðamaðurinn næstum tvöfalt hærra verð hér en að meðaltali innan Evrópusambandsins. Hótelgisting í Reykjavík hefur hækkað um 60 prósent frá árinu 2011 og er ein sú dýrasta í heimi um þessar mundir. Þá hefur nýting hótela dregist saman frá árinu 2017 og dróst saman um tæp sex prósent í fyrra. Íslandsbanki spáir að nýting hótela muni halda áfram að lækka í ár vegna fyrirhugaðrar fækkun ferðamanna. Þrátt fyrir það er áætlar Íslandsbanki að hótelherbergjum fjölgi um 6 prósent á árinu og 17 prósent árið 2020.
Hagnaður dróst saman um 61 prósent á milli ári
Íslandsbanki gaf í dag út nýja skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Í skýrslunni kemur fram að ytri áhrif á borð við styrkingu krónunnar, hægari fjölgun ferðamanna og verðþrýsting í flugrekstri vegna aukinnar samkeppni hafa leitt af sér hægari tekjuvöxt í greininni. Því virðist sem ekki hafi tekist nógu vel að mæta þeirri þróun með kostnaðarhagræðingu og niðurstaðan því versnandi rekstrarniðurstöður greinarinnar.
Árið 2017 skilaði tæplega helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu tapi. Rekstrargjöld hækkuðu hlutfallslega meira en tekjur og minnkar því EBITD- framlegð greinarinnar úr 17 prósentum í 11,6 prósent milli ára. Dróst hagnaður greinarinnar saman úr rúmum 27 milljörðum króna í tæplega 11 milljarða króna, eða um 61 prósent á árinu 2017 frá fyrra ári.
Nýting hótela í Reykjavík dróst saman um sex prósent í fyrra
Ferðamaður hér á landi ver stærstum hluta neyslu sinnar í gistiþjónustu eða 23 prósent af heildarneyslu sinni. Frá árinu 2010 samhliða uppgangi í ferðaþjónustu áttu hótel í Reykjavík í fullu fangi með að mæta aukinni eftirspurn eftir gistingu hér á landi samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar frá árinu 2010. Þessi mikla umfram eftirspurn skapaði skilyrði fyrir talsverðar verðhækkanir en verð á hótelum í Reykjaum hækkaði um 60 prósent á tímabilinu 2011 til 2017 á meðan það stóð í stað hjá hótelum innan Evrópu að meðaltali.
Síðan á seinni hluta ársins 2017 hefur nýting hótelherbergja hins vegar lækkað á flestöllum landshlutum. Nýting hótela í Reykjavík dróst saman um tæp sex prósentustig á árinu 2018 miðað við fyrra ár eða úr 84,4 prósentum á árinu 2017 í 78,6 prósent á árinu 2018. Hótel í Reykjavík veltu tæplega 25 milljörðum á síðastliðnu ári og jókst veltan um 5,8 prósent frá árinu 2017. Meðalverð hótela í Reykjavík jókst um 3,3 prósent á árinu 2018 miðað við fyrra ár og náðist því aukin velta með hærri meðalverði yfir árið þrátt fyrir lakari nýtingu.
Samkvæmt skýrslunni er hótelgisting í Reykjavík um þessar mundir rúmlega þriðjungi dýrari, 36 prósent, en að meðaltali hjá hótelum innan Evrópu og á bilinu 4 til 11 prósent dýrari en í stórborgum á borð við New York, Barcelona og London. Í skýrslunni segir að hátt verðlag hér á landi rýrir samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu og ljóst sé að ekki sé svigrúm fyrir frekari verðhækkanir hjá hótelum í Reykjavík, nú þegar nýting fer lækkandi og ferðamönnum fækkandi, er lítið sem ekkert
1333 hótelherbergi á næstu þremur árum
Í skýrslunni er greint frá því að áfram stefni í talsverða fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að útlit sé fyrir að ferðamönnum muni fækka á árinu en framboð flugsæta um Keflavíkurflugvöll hefur dregst saman um 28 prósent í ljósi gjaldþrots WOW air. Nýting á hótela fyrstu tveimur mánuðum ársins 2019 hefur lækkað mest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum frá sama tíma árið 2018. Að öðru óbreyttu má því gera ráð fyrir að nýting hótela á höfuðborgarsvæðinu muni verða lægri á þessu ári en á síðastliðnu ári að jafnaði, samkvæmt skýrslunni.
Engu að síður er áætluð fjárfesting hótela á höfuðborgarsvæðinu rúmir 61 milljarðar króna út árið 2021 eða um 20 milljarðar að meðaltali ár hvert. Greining Íslandsbanka áætlar að fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu verði um 1.300 til og með árinu 2021. Hlutfallsleg fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu er því um 8 prósent að meðaltali á hverju ári út spátímabilið.
1 prósent fyrirtækja með rúman helming allra tekna í ferðaþjónustu
Ferðaþjónustan á Íslandi einkennist því af fáum mjög stórum fyrirtækjum og mörgum litlum. Lítil fyrirtæki, með tekjur undir 500 miljónir króna er eru 1.234 talsins og mynda saman um 93 prósent af heildarfjölda fyrirtækja í greininni.
Rekstrartekjur þrettán stærstu fyrirtækjanna í ferðaþjónustu námu 245 milljörðum króna árið 2017 sem nemur 58 prósent af heildartekjum greinarinnar á árinu. Þar af námu tekjur tveggja stærstu flugfélaganna, Icelandair og WOW air 160 milljörðum sem nemur rúmum þriðjungi af heildartekjum greinarinnar. Lítil fyrirtæki eða 93 prósent af heildarfyrirtækjum greinarinnar skiluðu einungis 19 prósent af heildartekjum greinarinnar á árinu 2017.
Í skýrslu Íslandsbanka segir að nú líti allt út fyrir að á þessu ári muni í fyrsta sinn frá árinu 2011 draga úr fjölda ferðamanna til Íslands og þar með ljúki einu mesta vaxtarskeiði íslenskrar ferðaþjónustu. Bankinn segir að því blasi við verðug áskorun við að auka verðmæti á hvern ferðamann til að viðhalda verðmætaaukningu greinarinnar.