Sýn hf., hefur ráðið Þórhall Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Kastljóss, sem framkvæmdastjóra Miðla hjá fyrirtækinu. Hann tekur við starfinu 22. maí næstkomandi en undir sviðið heyra meðal annars fjölmiðlarnir Stöð 2, Stöð 2 sport og útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og Xið977 auk Vísis.
Þá hefur Signý Magnúsdóttir verið ráðin fjármálastjóri Sýnar frá og með 1. júní næstkomandi en stutt er síðan að Heiðar Guðjónsson, einn stærsti eigandi Sýnar, var ráðinn forstjóri félagsins.
Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að Þórhallur sé með meistaragráðu í sjónvarpsþáttagerð frá Goldsmiths, University of London og hefur undanfarin sex ár verið framkvæmdastjóri sjónvarps og kvikmyndadeildar Sagafilm. „Þar áður var hann dagskrárstjóri RÚV, ritstjóri Kastljóss, auk þess sem hann hefur stýrt fjölmörgum sjónvarpsþáttum af öllu tagi, m.a. Íslandi í dag á Stöð 2. Þórhallur hefur átt sæti í framkvæmdastjórn RÚV og stjórn Sagafilm. Hann hefur undanfarin ár verið framleiðandi margra stærstu sjónvarpsþátta á Íslandi, hvort sem um er að ræða leiknar sjónvarpsþáttaseríur, heimildarmyndir, fræðsluefni eða skemmtiþætti. Þórhallur kennir einnig miðlun upplýsinga við MBA nám Háskóla Íslands.“
Keyptu fjölmiðla
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars í fyrra. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
Miklar sviptingar hafa verið hjá Sýn undanfarin misseri, en kaupin á fjölmiðlunum hafa ekki skilað þeim árangri sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaður félagsins í fyrra var til að mynda 473 milljónir króna, sem var langt undir væntingum. Ekkert félag í Kauphöllinni lækkaði meira í virði en Sýn á síðasta ári, en virði bréfa þess fór niður um 38,3 prósent.
Þá misstu fjölmiðlar Sýn réttinn af einni af sínum vinsælustu vörum, Enska boltanum, í lok árs í fyrra og færast sýningar á honum yfir til Símans frá og með næsta hausti.
Stjórnarformaðurinn ráðinn forstjóri
Þrír stjórnendur Sýnar hafa verið látnir fara á þessu ári. Í lok febrúar, rúmum tveimur mínútum eftir að uppgjör félagsins vegna ársins 2018 var birt, barst tilkynning um að Stefán Sigurðsson, forstjóri félagsins, hefði náð samkomulagi um að hætta störfum.
Í byrjun árs voru tveir aðrir reknir, þar á meðal Björn Víglundsson, sem var yfir miðlum félagsins. Hans hlutverk hafði sérstaklega verið að leiða samþættingu fjölmiðlahluta Sýnar við aðrar einingar Fjarskipta og vinna að vöruþróun.
Fyrir viku síðan var greint frá því að Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, hefði verið ráðinn forstjóri Sýnar. Hann hætti á sama tíma sem stjórnarformaður félagsins, en Heiðar er einn stærsti hluthafi Sýnar með 6,4 prósent eignarhlut. Heiðar hafði gegnt starfi forstjóra tímabundið í nokkrar vikur áður en að hann var ráðinn í starfið.