Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um styrki til einkarekinna fjölmiðla var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í dag. Heimildir Kjarnans herma að til standi að leggja frumvarpið fram á Alþingi með afbrigðum fyrir þinglok, en frestur til að leggja fram ný þingmál á yfirstandandi þingi rann út í byrjum síðasta mánaðar.
Breytingar hafa verið gerðar á því frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í janúar síðastliðnum en ekki liggur enn fyrir hverjar þær eru.
Meginefni frumvarpsins snýst um að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum verða að viðtakendur uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Gert er ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf, í frumvarpsdrögunum.
Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki vera 25 prósent af kostnaði við framangreint, þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Jafnframt kemur fram í frumvarpsdrögunum að heimild sé til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.
Í frumvarpsdrögunum segir að lagt er til framlag ríkisins nemi 300 til 400 milljónum á ári. Um þau er hægt að lesa hér.
Stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu
Lilja kynnti frumvarpið 31. janúar síðastliðinn og í kjölfarið var það sett inn í samráðsgátt stjórnvalda. Fjölmargar athugasemdir bárust við það, meðal annars frá flest öllum fjölmiðlum landsins. Margar voru jákvæðar en athygli vakti að tvö af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, Torg sem gefur út Fréttablaðið, og Árvakur sem gefur m.a. út Morgunblaðið, gerðu miklar athugasemdir við að stærri fjölmiðlar fengu ekki meira og vildu að minni miðlar fengu ekkert.
Lilja sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í mars síðastliðnum að það væri stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu þrátt fyrir að það hefði verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars af hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks.
Mikið samráð hefur verið á milli fulltrúa allra ríkisstjórnarflokkanna þriggja til að tryggja samstöðu um frumvarpið svo hægt verði að leggja það fram á þingi á allra næstu vikum.