Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11. til 15. febrúar 2019.
Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum, eða 44 prósent, fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður, eða 35 prósent, heilbrigðisþjónusta, eða 35 prósent, og húsnæðismál, eða 30 prósent, sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára.
Af þeim áhyggjuefnum sem spurt var um hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum aukist mest frá könnun ársins 2018 eða um sem nemur 11 prósentustigum. Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs.
Húsnæðismál áhyggjuefni yngra fólksins
Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum reyndist svarendum 68 ára og eldri efst í huga, eða 62 prósent. Húsnæðismál voru hins vegar helsta áhyggjuefni svarenda á aldrinum 18 til 29 ára, eða 50 prósent.
Stuðningsfólk Pírata, eða 71 prósent, Miðflokks, eða 63 prósent, og Flokks fólksins, eða 60 prósent, var líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum. Stuðningsfólk Flokks fólksins reyndist einnig líklegast til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði, eða 57 prósent, og húsnæðismálum, eða 47 prósent, en stuðningsfólk Viðreisnar var líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu, eða 42 prósent. Þá reyndist stuðningsfólk Vinstri grænna líklegra en stuðningsfólk annarra stjórnmálaflokka til að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, eða 33 prósent.
Alls svöruðu 934 einstaklingar könnuninni, 18 ára og eldri.