Íslendingar hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og stjórnmálum

Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi.

Handaband
Auglýsing

Spill­ing í fjár­málum og/eða stjórn­málum veldur lands­mönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heil­brigð­is­þjón­ustu og hús­næð­is­málum fara minnk­andi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem fram­kvæmd var dag­ana 11. til 15. febr­úar 2019.

Svar­endur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku sam­fé­lagi. Líkt og í fyrra voru það spill­ing í fjár­málum og/eða stjórn­mál­um, eða 44 pró­sent, fátækt og/eða félags­legur ójöfn­uð­ur, eða 35 pró­sent, heil­brigð­is­þjón­usta, eða 35 pró­sent, og hús­næð­is­mál, eða 30 pró­sent, sem reynd­ust helstu áhyggju­valdar þjóð­ar­inn­ar, þó að röðun þeirra hafi tekið breyt­ingum á milli ára.

MMR könnun: Helstu áhyggjuefni landsmanna

Af þeim áhyggju­efnum sem spurt var um hafa áhyggjur af lofts­lags­breyt­ingum auk­ist mest frá könnun árs­ins 2018 eða um sem nemur 11 pró­sentu­stig­um. Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum mál­efnum eða um því sem nemur 13 pró­sentu­stigum frá könnun síð­asta árs.

Auglýsing

Hús­næð­is­mál áhyggju­efni yngra fólks­ins

Spill­ing í fjár­málum og/eða stjórn­málum reynd­ist svar­endum 68 ára og eldri efst í huga, eða 62 pró­sent. Hús­næð­is­mál voru hins vegar helsta áhyggju­efni svar­enda á aldr­inum 18 til 29 ára, eða 50 pró­sent.

Stuðn­ings­fólk Pírata, eða 71 pró­sent, Mið­flokks, eða 63 pró­sent, og Flokks fólks­ins, eða 60 pró­sent, var lík­leg­ast til að segj­ast hafa mestar áhyggjur af spill­ingu í fjár­málum og/eða stjórn­mál­um. Stuðn­ings­fólk Flokks fólks­ins reynd­ist einnig lík­leg­ast til að segj­ast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félags­legum ójöfn­uði, eða 57 pró­sent, og hús­næð­is­mál­um, eða 47 pró­sent, en stuðn­ings­fólk Við­reisnar var lík­leg­ast til að segj­ast hafa mestar áhyggjur af heil­brigð­is­þjón­ustu, eða 42 pró­sent. Þá reynd­ist stuðn­ings­fólk Vinstri grænna lík­legra en stuðn­ings­fólk ann­arra stjórn­mála­flokka til að segj­ast hafa áhyggjur af lofts­lags­breyt­ing­um, eða 33 pró­sent.

Alls svör­uðu 934 ein­stak­lingar könn­un­inni, 18 ára og eldri.

Meira úr sama flokkiInnlent