Hvernig tökumst við á við falsfréttir samfélagsmiðla? Við getum auðvitað sett allskonar reglur. En besta vörnin er auðvitað sú að fólk sé þjálfað í gagnrýnni hugsun. Að það séu kennt ákveðin vinnubrögð við það að meta upplýsingar.“
Þetta sagði Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og formaður starfshóps forsætisráðherra sem vann skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Viðtalið birtist í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr því hér að neðan.
Huginn segir það mjög mikilvægt að huga að stöðu borgaranna gagnvart tækninni. Það sé til að mynda hægt að gera með því að breyta áherslum í menntamálum. „Þá eigum við auðvitað að horfa á hvernig við undirbúum okkar fólk best til að takast á við áskoranir í atvinnulífinu og hvernig fólk getur menntað sig best til að vera með þá færni sem þarf fyrir fjórðu iðnbyltinguna.“
Hann nefnir síðan útbreiðslu falsfrétta sem dæmi um eitthvað sem hægt sé að kenna viðbrögð við, enda veki hún upp allskyns vandamál. Gott dæmi sé vandi sem tengist rangri upplýsingadreifingu um bólusetningar.