Breytingar á reglum um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík munu að óbreyttu leiða til þess að hækka þurfi leigu. Þetta kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um reglurnar, sem samþykktar voru á borgarráðsfundi 2. maí síðastliðinn.
Hækkunin komi til vegna þess að breyttar úthlutunarreglur geti leitt af sér að fleiri eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði.
Breytingarnar felast í því að teknar eru upp heildstæðar reglur um úthlutun á félagslegu húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Þær munu leysa af hólmi reglur um félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir aldraðra og verklag um úthlutun á sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk og heimilislausa sem hafa miklar þjónustuþarfir.
Í bókun meirihlutans á borgarráðsfundi segir að með þessum reglum séu tekju- og eignarviðmið rýmkuð og félagslegt mat skýrt, sem geri íbúum kleift að meta betur stöðu sína.
Fjármálaskrifstofan gerir ráð fyrir að mögulegur kostnaðarauki vegna einstaklinga sem kunna að bætast við á biðlista falli til hjá Félagsbústöðum. Reikna megi með að kostnaður við öflun húsnæðis geti numið allt að 4,3 milljörðum króna og kostnaður vegna þeirra 150 milljónum. Þetta segir fjármálaskrifstofan að muni að óbreyttu skila sér í því að nauðsynlegt verði fyrir Félagsbústaði að hækka húsaleigu.
Fjármálaskrifstofan segir þó að þarna sé um mat á hámarksáhrifum að ræða og að líkast til muni áhrifin verða mun minni.
Í umræðum um breytingartillögurnar í velferðarráði lagði fulltrúi Sjálfstæðisflokks fram bókun þar sem stefnuleysi borgarinnar í málaflokknum er gagnrýnt. Í bókuninni segir að fjölgun íbúða í félagslega kerfinu hafi ekki skilað sér í fækkun á biðlistum heldur hafi biðlistar lengst ár frá ári. Hann segir að marka þurfi stefnu þar sem fólki er hjálpað við að komast út úr félagslega kerfinu, hann segir að eignar- og tekjumörk núverandi kerfis vera fátæktargildru sem hafi letjandi áhrif á fólk.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna neituðu því að umsækjendum færi fjölgandi, þeim hafi fækkað um rúm sjö prósent á milli ára og að það hafi gerst meðfram fjölgunum á íbúðum í félagslega kerfinu. Einnig hafi verið farið í sérstakt átak til að koma til móts við barnafjölskyldur og keyptar hafi verið 49 íbúðir fyrir það verkefni. Fulltrúi Sósíalistaflokksins lét bóka að almenn skilyrði um að umsækjandi hafi þurft að eiga lögheimili í Reykjavík síðustu tólf mánuði geri það að verkum að tölurnar endurspegli ekki þann fjölda Reykvíkinga sem séu í raunverulegri þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði.