Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,2 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR sem birt var í dag og er sem fyrr stærsti flokkur landsins samkvæmt mælingum. Þetta er samt sem áður næst minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum MMR það sem af er kjörtímabili. Lægst mældist fylgi hans í nóvember 2018, eða 19,8 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um 2,3 prósentustig milli mánaða. Flokkurinn fékk 25,2 prósent atkvæða í kosningunum í október 2017.
Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt MMR með 14,1 prósent fylgi, sem er nánast sama fylgi og flokkurinn mældist með fyrir mánuði, þegar það var 14,3 prósent. Samfylkingin fékk 12,1 prósent fylgi í kosningunum 2017.
Vinstri græn endurheimta stöðu sína sem þriðji stærsti flokkur landsins, þótt þau deili því sæti með öðrum, og mælast nú með 13,4 prósent fylgi og bæta við sig 3,3 prósentustigum milli mánaða. Fylgi flokksins hefur ekki mælst meira frá því í maí í fyrra, eða í eitt ár. Vinstri græn eru þó enn töluvert frá kjörfylgi sínu, sem var 16,9 prósent.
Píratar mælast með jafn mikið fylgi og Vinstri græn. Það er nánast sama fylgi og flokkurinn fékk í síðustu könnun, og 4,2 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2017.
Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að dala hægt og rólega eftir að hafa tekið kipp upp á við í kjölfar Klausturmálsins. Nú segjast 9,8 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn sem er 1,4 prósentustigum færri en fyrir mánuði síðan og tæpu prósentustigi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Miðflokkurinn kemur á hæla Framsóknarflokksins með 9,2 prósent fylgi sem er nákvæmlega sama hlutfall og sagðist fylgja flokknum að málum fyrir mánuði síðan, en 1,7 prósentustigi frá kjörfylgi hans.
Viðreisn mælist nú jafn stór og Miðflokkurinn hjá MMR með 9,2 prósent fylgi, sem er 1,4 prósentustigum meira en í síðustu mælingu og 3,5 prósentustigum meira en í kosningunum 2017.
Flokkur fólksins myndi rétt sleppa yfir fimm prósent þröskuldinn, og inn á þing, ef kosið yrði núna með 5,1 prósent fylgi. Það er nánast sama fylgi og hann mældist með síðast en 1,8 prósentustigi undir árangri flokksins í síðustu kosningum.
Sósíalistaflokkur Íslands heldur áfram að mælast ágætlega og er nú með 4,2 prósent fylgi, sem er 1,4 prósentustigi meira en í könnun MMR sem birt var í apríl.
Stuðningur við ríkisstjórn 40 prósent
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er 43,4 prósent og dregst saman 2,4 prósentustig milli mánaða. Alls hafa Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsókn tapað 9,4 prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum, samkvæmt könnunum MMR.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn mælast nú saman með 36,7 prósent fylgi í könnunum MMR en fengu 28 prósent í kosningunum 2017. Fylgisaukning Viðreisnar milli mánaðar hækkar sameiginlegt fylgi þeirra lítillega.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mælast saman með 14,3 prósent fylgi hjá MMR, sem er töluvert frá þeim 17,8 prósentum sem flokkarnir tveir fengu í síðustu kosningunum.
Eftir að hafa risið á undanförnum mánuðum fellur stuðningur við ríkisstjórnina niður í 40,4 prósent í könnunum MMR. Það er minnsti stuðningur við hana sem mælst hefur á þessu ári.
Munur á könnunum
Athygli vekur að könnun MMR sýnir aðeins aðra stöðu en nýjasta könnun Gallup, sem birt var um helgina. Þar mældist sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna aðeins meira, eða 44,9 prósent, en staða Sjálfstæðisflokksins (23,5 prósent) mælist sterkari og fylgi Framsóknarflokksins (8,0 prósent) umtalsvert minna.
Samfylkingin mælist líka stærri hjá Gallup en MMR (16,2 prósent) sem og Viðreisn (11,0 prósent) en fylgi Pírata mælist þar minna (11,1 prósent).
Fylgi Miðflokksins (8,9 prósent) er á mjög svipuðum slóðum hjá Gallup og MMR en fyrrnefna fyrirtækið mælir Flokk fólksins (4,0 prósent) með það lítið fylgi að hann næði ekki inn manni á þing.
Mestu munar þó um mælingu á stuðningi við ríkisstjórnina. MMR mælir hann, líkt og áður sagði, sem 40,4 prósent og á niðurleið en Gallup segir hann vera 51,6 prósent og á uppleið.
Í könnun MMR var framkvæmdin þannig að einstaklingar eldri en 18 ára voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Alls svöruðu 941 könnuninni sem var framkvæmd 30. apríl til 3. maí 2019.
Niðurstöður Gallup eru úr netkönnun sem fyrirtækið gerði dagana 5. til 30. apríl 2019. Heildarúrtaksstærð var 5.189 og þátttökuhlutfall var 57,7 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.