Mynd: Bára Huld Beck Alþingi - Janúar 2018

Þriðji orkupakkinn og kjarasamningar hafa lítil áhrif á fylgi flokka

Engar merkjanlegar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokka milli mánaða, þrátt fyrir að kjarasamningum við rúmlega helming vinnumarkaðar hafi verið lokið og að þriðji orkupakkinn hafi átt hið pólitíska svið vikum saman. Klausturflokkarnir hafa tapað þriðjungi af fylgi sínu og það virðist ekki vera að skila sér til baka.

Svo virðist sem stór mál sem taka mikið pláss á vettvangi stjórnmálanna, gerð kjarasamninga við stærstu verkalýðsfélög landsins og átök um þriðja orkupakkann, hafi lítil sem engin áhrif á fylgi flokka.

Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var um helgina, kemur fram að sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna mælist 44,9 prósent, eða 0,7 prósentustigum minna en fyrir mánuði. Sameiginlegt fylgi þeirra þriggja stjórnarandstöðuflokka sem eru fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans mælist nú 38,3 prósent en var 37,8 prósent í lok mars.

Fylgi þeirra tveggja flokka á þingi sem eru yfirlýst á móti þriðja orkupakkanum, Miðflokksins og Flokks fólksins, stendur nánast í stað milli mánaða. Það mælist nú 12,4 prósent en var 12,6 prósent í síðustu mælingu á undan.

Eina markverða breytingin sem könnun Gallup sýnir er aukinn stuðningur við ríkisstjórnina, og þar getur hlutverk hennar í að loka erfiðum kjarasamningum hafa verið ráðandi breyta. Stuðningur við hana mælist nú 51,6 prósent og hefur ekki mælst svo hár frá því í júní í fyrra. Aukin stuðning við ríkisstjórn virðist þó ekki skila sér í auknu fylgi við ríkisstjórnarflokkanna þrjá.

Stjórnarflokkarnir tapa en innan skekkjumarka

Nokkur stöðugleiki hefur ríkt í fylgi flokka síðastliðið ár og virðist fylgið fyrst og síðast færast á milli blokka, formlegra og óformlegra, sem myndast hafa á átta flokka Alþingi. Þó virðist vera að atkvæði geti blætt milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks annars vegar og Miðflokks og Flokks fólksins hins vegar. Dæmi um það sáust í fyrrahaust.

Fylgi stjórnarflokkanna þriggja: Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, mældist 49,0 prósent fyrir ári síðan en mælist nú 44,9 prósent.

Munurinn þar á virðist að mestu leyti markast á uppgangi Sósíalistaflokks Íslands, sem bauð í fyrsta sinn fram í borgarstjórnarkosningunum í fyrra og náði inn einum manni. Hann virðist að mestu taka fylgi af Vinstri grænum og mælist nú með 3,6 prósent fylgi.

Í nýjustu könnuninni dregst sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja saman um 0,6 prósent, sem er innan skekkjumarka. Vinstri græn bæta við sig 1,7 prósentustigi og myndu fá 13,3 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn (23,5 prósent) og Framsóknarflokkurinn (8,0 prósent) tapa hins vegar báðir lítillega fylgi milli kannana. Ef áfram fer sem horfir munu stjórnarflokkarnir þrír eiga í erfiðleikum með að endurnýja stjórnarsamstarf sitt.

Mjög stöðugt fylgi miðjuflokka í andstöðu

Sameiginlegt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar, þriggja flokka sem vinna umtalsvert saman og hafa forystumenn þeirra hafa ámálgað að ættu að mynda hluta næstu ríkisstjórnar, virðist líka vera afar stöðugt. Það mælist nú 38,3 prósent en var 37,8 prósent í síðustu mælingu á undan, sem er breyting innan skekkjumarka.

Fyrir einu ári síðan var fylgi flokkana þriggja 37,4 prósent samkvæmt mælingum Gallup eða mjög svipað og það mælist nú. Ef kosið yrði í dag það gætu þessir þrír flokkar vel við unað enda mælist sameiginlegt fylgi þeirra 10,3 prósentustigum hærra en það sem flokkarnir þrír fengu í kosningunum haustið 2017.

Samfylkingin (16,2 prósent) mælist stærst flokkana þriggja, Píratar (11,1 prósent) koma þar á eftir en vart er mælanlegur munur á fylgi þeirra og Viðreisnar (11,0 prósent).

Hafa misst þriðjung af fylgi sínu

Hinir tveir flokkarnir í stjórnarandstöðu, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, eiga mun oftar málefnalega samleið en aðrir flokkar sem tilheyra henni. Hún hefur birst mjög skýrt í nokkrum málum síðustu misseri, sérstaklega í andstöðu við þriðja orkupakkann og frumvarp um þungunarrof.

Þrátt fyrir umtalsverða fyrirferð þeirra mála sem flokkarnir leggja mikla áherslu á í umræðunni þá skilar það þeim ekki neinni fylgisaukningu. Sameiginlegt fylgi þeirra tveggja mælist nú 12,4 prósent og Flokkur fólksins (4,0 prósent) myndi ekki ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag. Miðflokkurinn mælist með 8,9 prósent fylgi sem undir kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum. Í þeim kosningum, sem fram fóru í október 2017, fengu Flokkur fólksins og Miðflokkurinn saman 17,8 prósent atkvæða. Flokkarnir tveir hafa því saman tapað um þriðjungi atkvæði sinna það sem af er kjörtímabili.

Sameiginlegt fylgi flokkanna tveggja er nánast það sama nú og það mældist fyrir um ári síðan, í maí 2018, þegar það mældist 12,1 prósent.

Klaustur skilaði fylginu til baka til stjórnarflokka

Vendipunktur varð í íslenskum stjórnmálum með hinu svokallaða Klaustursmáli, sem var opinberað í lok nóvember í fyrra. Í því voru opinberaðar upptökur af drukknu tali sex þingmanna, tveimur úr Flokki fólksins og fjórum úr Miðflokknum, á Klaustur Bar 20. nóvember 2018 þar sem þeir ræddu meðal annars útdeilingu sendiherraembætta og pólitíska greiða ásamt því að ræða með niðrandi, og á stundum kynferðislegum, hætti um aðra stjórnmálamenn, fatlaða og samkynhneigða.

Þegar Klausturmálið varð hafði mælst skriður á fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins og sameiginlegt fylgi þeirra hafði risið jafnt og þétt í nokkrum könnunum í röð, mest á kostnað ríkisstjórnarflokkanna. Í nóvember mældist það 18,2 prósent, eða rétt yfir kjörfylgi þeirra. Fylgi Miðflokksins var mun meira á þeim tíma, eða 12 prósent, en Flokkur fólksins var að mælast nokkuð örugglega inni á þingi með 6,2 prósent fylgi.

Ljóst er að málið hefur kostað flokkanna umtalsvert fylgi, eða um þriðjung, og lítið virðist ganga, að minnsta kosti enn sem komið er, að ná því til baka. Á þessu virðast stjórnarflokkarnir þrír græða en sameiginlegt fylgi þeirra var komið niður í 41,5 prósent fyrir Klaustursmálið en mælist nú, líkt og áður sagði, 44,9 prósent. Auk þess virðist hluti fylgisins skila sér til Sósíalistaflokksins.

Miðjublokk Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar virðist hins vegar ekki verða fyrir neinum teljandi áhrifum af málinu, þrátt fyrir að þingmaður Samfylkingarinnar hafi skömmu síðar verið sendur í leyfi fyrir að hafa beitt blaðamann kynferðislegri áreitni og með því brotið siðareglur flokksins. Hann er nú snúinn aftur til starfa.

Sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja mældist 38,7 prósent áður en að Klaustursmálið kom upp en mælist nú, líkt og áður sagði, 38,3 prósent sem er munur innan skekkjumarka.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar