Hollenska flugfélagið Transavia hefur hafið beina sölu á flugsætum til Akureyrar frá Rotterdam, í ferðir sem farnar verða í sumar og næsta vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem hollenskt flugfélag selur sjálft sæti í ferðir til Akureyrar og því í raun fyrsta sinn sem í boði er áætlunarflug til og frá Akureyri til Hollands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.
Gríðarlegt tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi
Flugið er tilkomið vegna ferða á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel sem hóf á síðasta ári sölu á skipulögðum ferðalög um Ísland frá Akureyri. Transavia selur nú hins vegar aðeins sætin, óháð Voigt Travel.
Transavia Netherlands er hollenskt lággjaldaflugfélag og hluti af Air France KLM Group. Transavia er annað stærsta flugfélagið í Hollandi. Það flýgur til meira en 110 áfangastaða, aðallega í Evrópu og Norður-Afríku og flytur meira en 15 milljón farþega á ári.
Í tilkynningunni segir að Markaðssofa Norðurlands fagni þessum áfanga enda sé ljóst að þetta skapi gríðarleg tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, en einnig fyrir aðrar atvinnugreinar. Nú býðst Norðlendingum enn fleiri tækifæri til að kaupa stök flugsæti til Rotterdam en þaðn er hægt að fljúga áfram til fjölda annarra áfangastaða.
Í byrjun apríl var tilkynnt að Transavia myndi byrja að fljúga frá Schiphol í Hollandi til Keflavíkur þrisvar sinnum í viku frá 5. júlí næstkomandi og þannig fylla upp í hluta af því skarði sem varð til við brottfall WOW air.