Korthafar Landsbankans og Arion banka geta nú tengt kortin sín við Apple Pay. Með Apple Pay geta notendur iPhone, Apple Watch, iPad og Mac-tölva greitt fyrir vörur og þjónustu í verslunum víða um heim sem og á netinu. Bandaríska tölvufyrirtækið Apple hefur boðið upp á greiðsluþjónustuna frá 2014 en hún hefur til þessa ekki verið aðgengilegt með íslenskum greiðslukortum.
Íslandsbanki mun einnig bjóða upp á þjónustuna á næstunni
Í tilkynningum frá Arion banka og Landsbankanum segir að með Apple Pay njóti viðskiptavinir áfram allra fríðinda og trygginga sem tengjast greiðslukortunum þeirra. Jafnframt segir að Apple Pay sé einfalt og öruggt í notkun en þegar greiðslukort er tengt við Apple Pay, vistast kortanúmerið hvorki í tækið né á netþjóna Apple. Þess í stað er sérstökum sýndarnúmerum úthlutað, þau dulkóðuð og geymd með öruggum hætti í því tæki sem notað er, hvort sem það er iPhone sími, Apple Watch úr eða Mac tölva. Jafnframt þarf notandi að auðkenna sig með fingrafara- eða andlitsskanna iPhone símans áður en greiðsla er framkvæmd.
,,Það er ánægjulegt að geta nú boðið viðskiptavinum Arion banka að greiða fyrir vörur og þjónustu í gegnum Apple Pay. Bankaþjónusta er að breytast mikið og hratt og við höfum verið í fararbroddi um tækninýjungar. Apple Pay er einfalt í notkun og smellpassar við þá stefnu okkar að bjóða upp á framsækna og þægilega bankaþjónustu hvar og hvenær sem er, “ segir Stefán Pétursson, bankastjóri Arion banka.
Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður sameinaðs sviðs markaðsmála, samskipta og greiningu hjá Íslandsbanki, segir í samtali við Kjarnann að Apple Pay muni einnig standa viðskiptavinum Íslandsbanka til boða á næstunni en að ekki sé ljóst nákvæmlega hvenær.