Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur og stjórnarmaður Læknafélags Íslands, segir heilbrigðisstefnu Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, ekki vera afrakstur faglegrar og nútímalegrar stefnumótunarvinnu. Hann segir hana heldur vera lið í að ríkissvæða heilbrigðisþjónustuna hratt og hljótt. Þetta kemur fram í pistli hans í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Heilbrigðisstefnan á að standa af sér hentistefnu mismunandi ráðherra
Heilbrigðisráðhera lagði fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í janúar síðastliðnum en eitt af markmiðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er vinnsla heilbrigðisstefnu. Stefnan á að fela í sér framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu til næstu tíu ára en tillagan er nú til umfjöllunar hjá velferðarnefnd.
Í pistli Þórarins sem ber yfirskriftina „Heilbrigðistefna í öngstræti“ gagnrýnir hann heilbrigðisstefnu Svandísar harðlega sem og vinnubrögð við stefnumótunina. „Það plagg sem er nú til skoðunar í velferðarnefnd Alþingis olli mörgum vonbrigðum enda er mikil þörf fyrir vandaða og heildstæða stefnumótun á heilbrigðissviði; framtíðarsýn sem stendur af sér hentistefnur mismunandi ráðherra og ríkisstjórna hvers tíma,“ segir í pistlinum.
Segir að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga fagfólks
Þórarinn segir að veikleikar stefnunnar séu fyrst og fremst í því hversu mikið það vanti umfjöllun um hin ýmis heilbrigðismál. Þar tekur hann fjölda dæmi, þar á meðal segir hann að ekkert sé fjallað um öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál. Jafnframt vanti að mestu umfjöllun um stóran, vaxandi og mikilvægan hluta heilbrigðiskerfsins sem sé heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
Jafnframt segir hann að við gerð heilbrigðisstefnunnar hafi ekki verið farið eftir hefðbundinni stefnumótunarvinnu. Hann segir að gagnaöflun og stöðumat við gerð stefnunnar hafi verið takmörkuð og að greining gagna hafi aldrei verið framkvæmd. Þá hafi algjörlega verið horft fram hjá fyrri heilbrigðisáætlunum við gerð stefnunnar og tillögur um innleiðingu, markmið og mælikvarðar séu fáar í stefnunni og tilviljunarkenndar.
Þá gagnrýnir Þórarinn að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga fagfólks. „Þrátt fyrir fjölmargar ábendingar fagfólks og leikmanna á fundum, á Heilbrigðisþingi og í samráðsgáttinni. Þær ábendingar hafa nær allar verið virtar að vettugi og sumir tala um sýndarsamráð.“
Hann segir stefnuna í raun vera ónothæfa því hana vanti alla heildarsýn. „Nær hefði verið að tala um stefnumótun fyrir hinn ríkisrekna hluta heilbrigðiskerfisins því nánast eingöngu er fjallað um þann hluta heilbrigðiskerfisins í tillögunni þótt farið sé um víðan völl í greinargerðinni.“
Hvetur þingmenn til að hafna þingsályktunartillögu Svandísar
Að lokum segir Þórarinn að allir séu sammála um að heilbrigðiskerfið þurfi að vera aðgengilegt öllum landsmönnum, að biðlistar séu í lágmarki og jafnræðis sé gætt milli sjúkdóma og sjúklinga. Hann segir að forsenda slíkrar þróunar sé heildstæð og vönduð langtímastefnumótun. Heilbrigðistefnu ráðherra er hinsvegar ekki slík stefnu að hans mati og hvetur hann því þingmenn til að hafna þingsályktunartillögunni.
„Sú brotakennda stefna um ríkisrekna heilbrigðiskerfið sem nú liggur fyrir Alþingi er ljósárum frá því að vera slíkt plagg. Ég hvet þingmenn til að hafna núverandi plaggi en fela ráðuneytinu að hefja vandaða faglega vinnu við mótun heilbrigðisstefnu allra landsmanna, leita til þess aðstoðar fagmanna í stefnumótun og leggja þannig fjármuni til verkefnisins að unnt sé að vinna það af ítrustu fagmennsku. Framtíð heilbrigðiskerfisins okkar er í húfi,“ skrifar Þórarinn að lokum í pistlinum.