„Þetta er stórt mál. Við þurfum líka að gæta þess að það sé ekki hægt að eyðileggja orðspor fólks með slúðri eða árásum á samfélagsmiðlum eða eitthvað slíkt. Þannig að við vöndum okkur auðvitað mjög mikið við svona mikilvægar ákvarðanir.“
Þetta segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, um það þegar eftirlitið er að meta hæfi fólks til að stýra fjármálafyrirtækjum eða sitja í stjórnum þeirra. Einn þeirra þátt sem eftirlitið metur er orðspor þeirra sem eru metnir.
Unnur var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Traust á bankakerfið hrundi fyrir áratug og þótt það hafi braggast á síðustu árum mælist það enn einungis 20 prósent. Fjórir af hverjum fimm landsmönnum treysta því ekki bönkum.
Unnur segir að mikil breyting hafi orðið á undanförnum árum á því hvernig hæfi einstaklinga til að stýra fjármálafyrirtækjum eða sitja í stjórnum þess er metið. „Það komu inn í lög 2010 ákvæði þar sem eftirlitinu var falið að meta hæfi allra stjórnarmanna í eftirlitsskyldum aðilum. Þetta eru 600-700 manns. Á hverju ári eru um 100 metnir. Í fyrra voru þeir akkúrat 100. Tíu stóðust ekki hæfismat. 115 voru metnir árið 2017. Níu stóðust ekki þá. Þetta er fyrir utan þá sem ákveða að víkja þegar þeir finna að þeir eru ekki að fullnægja kröfunum.“
Hún segir að stjórnir fjármálafyrirtækja hafa meira frelsi en Fjármálaeftirlitið til að takast á við þetta mat vegna þess að eftirlitið er svo bundið af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár
„Þetta er eins og eignarnám. Mjög mikið inngrip inn í grundvallarfrelsi einstaklingsins þegar verið er að kveða upp um það að þú sért ekki hæfur til að stjórna fyrirtæki. Þannig að það sem við þurfum að byggja á varðandi orðsporið það er í rauninni hlutir sem hafa verið sannaðir.“
Aðspurð um hvort það fari saman að einstaklingar, sem hafi til að mynda stöðu grunaðra manna í virkri sakamálarannsókn, sitji í stjórnum eftirlitsskyldra fyrirtækja segir Unnur að það sé ekki til neitt einfalt svar við því. „Í þeim tilvikum er heppilegast að þeir sem veita þessu fólki umboð taki sjálft þessa stefnumarkandi ákvörðun um hvaða svipmót á að vera á stjórninni, áður en að hægt verði að fara með stjórnvaldsákvörðum í slíkt inngrip.“