Aldursmörk umsækjanda um ófrjósemisaðgerð hafa nú verið færð úr 25 árum í 18 ár en frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til laga um ófrjósemisaðgerðir var samþykkt á Alþingi í fyrradag. Með lögunum er kveðið á um rétt fólks til ófrjósemisaðgerðir, að þær skuli vera gjaldfrjálsar og framkvæmdar af þeim sem hafa tilskilda menntun og reynslu.
Frumvarpið var lagt fram sem hluti af heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefnd um heildarendurskoðun þeirrar löggjafar lagði til að fjallað yrði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum, enda væru þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir væru mjög óskyldar aðgerðir sem ekki stæðu rök til að fjallað væri um í sömu lögum.
Nú verður einungis heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerðir á einstaklingum sem ekki hafa náð 18 ára aldri að uppfylltum ströngum skilyrðum um að frjósemi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins. Fyrir því er jafnframt sett skilyrði um að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns. Áður en ófrjósemisaðgerð er framkvæmd skal fræða einstakling um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættu samfara henni og afleiðingar.
Nefndin lagði til að lækka lágmarksaldur niður í 18 ára
Í greinargerð með frumvarpinu sem lagt var í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember á síðasta ári kemur fram að tilurð þess hafi verið að heilbrigðisráðherra skipaði í mars 2016 nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Í nefndina voru skipuð Sóley S. Bender formaður, sérfræðingur í kynheilbrigði og prófessor við Háskóla Íslands, Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi, cand.com. og tengiliður vistheimila í innanríkisráðuneytinu, og Jens A. Guðmundsson, sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum og dósent við Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar var Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Nefndin skilaði skýrslu sinni til heilbrigðisráðherra í nóvember 2016 þar sem meðal annars var lagt til að sett yrðu þrenn ný lög í stað eldri laga, það er lög um fræðslu og ráðgjöf varðandi kynheilbrigði, lög um þungunarrof og lög um ófrjósemisaðgerðir.
Í skýrslunni leggur nefndin til að lækka lágmarksaldur umsækjanda um ófrjósemisaðgerð niður í 18 ára í samræmi við ákvæði lögræðislaga, einungis verði heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerðir á börnum yngri en 18 ára af læknisfræðilegum ástæðum, ef lífi eða heilsu stúlku væri stefnt í hættu með þungun eða fæðingu eða ef einsýnt væri að barn viðkomandi yrði alvarlega vanskapað og/eða lífshættulega veik sem og að afmá skuli alla mismunun í lögunum gagnvart fötluðum einstaklingum. Tillögur nefndarinnar voru lagðar til grundvallar við gerð frumvarpsins.
Hundruð ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar á ári
Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Páli Vali Björnssyni um ófrjósemisaðgerðir frá því í nóvember 2015 kemur fram að á árunum 1981 til 2014 hafi ófrjósemisaðgerðir verið á bilinu 461 til 775 á ári. Flestar aðgerðir hafi verið gerðar á árunum 1996 til 2000 eða yfir 700 aðgerðir hvert ár.
Jafnfram segir að umtalsverð breyting hafi orðið á þessum árum á hlutfalli aðgerða eftir kyni en árið 1981 og fram til ársins 1988 hafi meiri hluti ófrjósemisaðgerða verið gerðar á konum en eftir árið 1988 hafi karlmenn verið í meirihluta. Í svarinu kemur einnig fram að langflestar aðgerðir sem framkvæmdar eru séu byggðar á heimild í gildandi lögum en á árunum 1981 til 2014 hafi 52 ófrjósemisaðgerðir verið framkvæmdar og af þessum 52 einstaklingum hafi 41 verið konur og 11 karlar.
„Af þessu er ljóst að mikill meirihluti þeirra einstaklinga sem undirgangast ófrjósemisaðgerðir af læknisfræðilegum ástæðum, félagslegum ástæðum eða ástæðum sem rekja má til fötlunar eða afkomanda viðkomandi einstaklings eru konur. Á árunum 2014 til 2017 voru ófrjósemisaðgerðir 634 til 638 talsins á ári og af þeim voru aðgerðir sem byggðu á heimild í II. lið 18. gr. tvær árið 2014 og báðar framkvæmdar á konum og fjórar árið 2017, tvær konur og tveir karlar,“ segir greinargerð með frumvarpinu.
15 ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns
Á árunum 2000 til 2017 voru fimmtán ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar samkvæmt umsóknum undirritaðar af lögráðamanni. Þar af voru tólf konur og þrír karlar. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanni Pírata, um ófrjósemisaðgerðir og þungunarrof í lok apríl síðastliðins.
Í svarinu kemur jafnframt fram að samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hafi engar ófrjósemisaðgerðir verið gerðar á grundvelli 22. gr. laganna frá árinu 2016 sem hljóðar svo: „Ef ástæður til ófrjósemisaðgerðar svo sem segir í 18. gr. II. eru fyrir hendi eða ef viðkomandi er fullra 25 ára, en er vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða annarra geðtruflana varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar, er heimilt að veita leyfi til aðgerðar samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns.“
Ein aðgerð var framkvæmd á Sjúkrahúsinu á Akureyri árið 2017. Á árunum 2013 til 2016 var verklagið þannig að forsjáraðilar einstaklings höfðu samband við Landspítala. Yfirlæknir kvensjúkdómadeildar átti í framhaldinu viðtal við forsjáraðila, og skjólstæðing ef mögulegt var, þar sem ræddir voru mögulegir valkostir, til að mynda langtímagetnaðarvarnir, ásamt því að aðilar voru upplýstir um ferli umsóknar. Ef óskað var eftir ófrjósemisaðgerð sóttu félagsráðgjafi og yfirlæknir um hjá sýslumanni að sérstakur lögráðamaður yrði skipaður til að gæta hagsmuna einstaklingsins og viðkomandi sendi í framhaldinu umsókn ásamt greinargerð til kvennadeildar Landspítala.
Með vísan til þess hversu viðkvæm mál af þessum toga eru þá var tekin ákvörðun um að vísa öllum málunum til úrskurðarnefndar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir til umfjöllunar. Þegar ákvörðun lá fyrir um aðgerð var skjólstæðingur kallaður í aðgerð. Ef um stúlku undir 18 ára aldri var að ræða var hún innrituð á Barnaspítala Hringsins. Forsjáraðilar voru í öllum tilvikum viðstaddir, segir í svarinu.
Þórhildur Sunna spurði einnig hvort heilbrigðisstarfsfólk hefði þurft að beita þvingunum til þess að framkvæma ófrjósemisaðgerð eða þungunarrof. Í svarinu segir að samkvæmt upplýsingum frá Landspítala eru þvinganir, líkamlegar eða andlegar af hálfu heilbrigðisstarfsfólks, aldrei viðhafðar á kvennadeild Landspítalans hvort sem um er að ræða fullorðinn einstakling, barn eða ungmenni með eða án greindarskerðingar.