Það fer ekki á milli mála, hvort sem við lítum til umræðna út í heimi um loftslagsmál eða hér heima, að sá málaflokkur mun yfirgnæfa öll önnur mál í þjóðfélagsumræðum, ekki bara næstu ár heldur næstu áratugi.
Þetta skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í pistli sem ber titilinn „Loftslagsmálin verða stóru mál næstu ára og áratuga“ í sínu gamla blaði í dag.
Hann telur það smátt að smátt vera að skýrast um hvað loftslagsumræður muni snúast. „Kjarni þess boðskapar, sem heyrist úr öllum áttum er, að mannfólkið verði að draga úr neyzlu sinni í víðtækum skilningi þess orðs. Það sé stöðugt vaxandi neyzla, sem sé undirrót vandans og þar á meðal ástæðan fyrir því að jöklarnir á Íslandi eru ýmist að minnka eða hverfa.“
Meiri bylting á lífsháttum en við gerum okkur grein fyrir
Styrmir spyr sig enn fremur hvað felist í því að minnka neyslu. „Það er augljóst að í því felst að við munum vega að því, sem í raun er undirstaða hagkerfa samtímans, hvort sem þau eru byggð upp á einkaframtaki og einkaeign eða kapítalismi undir alræðisstjórnum eins og í Kína og Rússlandi. Og hvaða áhrif mun það hafa á daglegt líf okkar og þau samfélög, sem hafa verið byggð upp, þegar neyzlan á öllum sviðum dregst stórlega saman?“ spyr hann.
Hann segir að sennilega felist í því meiri bylting á samfélögum og lífsháttum en við höfum ímyndunarafl til að átta okkur á. En þess breyting verði, þótt eldri kynslóðir muni ekki upplifa hana nema rétt á byrjunarstigi og muni sú breyting hafa ýmislegt fleira í för með sér.
Munu græningjarnir taka við?
En hverjir munu leiða þá breytingu á hinum pólitíska vettvangi? Styrmir bendir á að „græningjarnir“ hafi verið að styrkja stöðu sína verulega í sumum Evrópulöndum og hér á Íslandi heyrist jafnvel raddir um að til geti orðið ný pólitísk hreyfing græningja vegna þess að VG sé líka að sumra mati á góðri leið með að missa tengslin við þann uppruna sinn ekki síður en tengslin við baráttu alþýðunnar á síðustu öld fyrir bættum kjörum.
Svo geti verið að hinir hefðbundnu flokkar, sem sinnt hafa umhverfismálum minna en efni hafa staðið til, vakni upp við vondan draum og lagi sig að breyttum aðstæðum.
Framtíðin í höndum Gretu Thunberg okkar tíma
En hann telur þetta ekki einungis snúast um flokkapólitík. „Loftslagsmálin munu verða okkur hér á þessari eyju hvatning til að verða sjálfum okkur nóg í ríkara mæli en fram að þessu vegna þess að einn þáttur í að bregðast við loftslagsbreytingum er einfaldlega að það verður betri kostur að framleiða margvíslegan varning og neyzluvörur hér heima fyrir en flytja þær til Íslands með þeim kostnaði, sem því fylgir m.a. vegna loftslagsbreytinga af þeim sökum,“ skrifar Styrmir.
Hann segir loftslagsbreytingar vera veruleika, „sem við komumst ekki hjá að horfast í augu við“. Þeir sem á síðustu áratugum hafi reynt að gera lítið úr þeim vandamálum, muni enda sem hjáróma raddir.
Styrmir telur jafnframt að þær stjórnmálahreyfingar, sem taka ekki eftir því sem er að gerast í heiminum og bregðast þess vegna ekki við, muni hverfa af sjónarsviðinu. Framtíðin verði í höndum Gretu Thunberg okkar tíma.