„Ég get sjálf ekki séð að það auka sjálfstæði frá pólitík,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, um fyrirhugaða sameiningu eftirlitsins og Seðlabanka Íslands.
Unnur segir að sjálfstæði fjármálaeftirlits þurfi að vera bæði frá stjórnmálum og þeim eftirlitsskyldu aðilum sem Fjármálaeftirlitið á að fylgjast með. Með sameiningu stofnana verði til þrjár stoðir innan hins nýja seðlabanka: stoð peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits.
Aðalhvatinn á bak við sameininguna snýr að því að styrkja fjármálastöðugleikastoðina en Unnur bendir á að það gætu skapast þær aðstæður að ósamræmi myndi ríkja milli markmiða fjármálaeftirlits, sem hefur það hlutverk að stuðla að heilbrigðum fjármálamarkaði, og markmiða peningastefnunnar, sem er að stuðla að lágri verðbólgu.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Unni í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði ítarlegri grein í Vísbendingu nýverið þar sem fjallað er meðal annars um fyrirhugaða sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, með gagnrýnum hætti.
Í grein Gylfa sagði að margvíslegar hættur geti steðjan að fjármálaeftirliti og sjálfstæði þess á litlum markaði eins og þeim íslenska. T.d. geti stjórnmálamenn reynt að hafa áhrif á, bæði í gegnum persónuleg tengsl við fjárfesta og með pólitískum skipunum í stjórnir.
Unnur segist hafa lesið grein Gylfa og taldi hana glögga og góða greiningu á þeim áskorunum sem fylgja sameiningunni. Aðspurð hvort að sú tortryggni sem ríkt hefur í íslensku samfélagi, og birtist meðal annars í því að einungis 20 prósent þjóðarinnar treystir bankakerfinu og 18 prósent treysti Alþingi áratug eftir hrunið, muni duga sem aðhald til að koma í veg fyrir að pólitískur fingur fari að fikta í fjármálaeftirlitinu, og mögulega veikja það, segir Unnur að þótt Íslendingar séu ekki búnir að gleyma núna, þá geti hlutirnir samt sem áður gleymst hratt. „Ég held að við þurfum að vanda okkur og stjórnmálin líka að vanda sig mjög mikið í þessu efni.“