Ásett verð nýbygginga hækkar nú hraðar en ásett verð annarra íbúða. Auglýst fermetraverð í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 8 prósent síðastliðið ár samanborið við 5 prósent hækkun á ásettu verði annarra íbúða. Ásett fermetraverð nýbygginga mælist nú 100.000 króna hærra en annara íbúða og er fermeterinn á um 600.000 krónur. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Nýjar íbúðir seljast í auknum mæli undir ásettu verði
Í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs segir að nýjar íbúðir seljast nú í auknum mæli undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu. Tæplega helmingur allra seldra nýbygginga selst nú undir ásettuverði samanborið við um um 80 prósent eldri íbúða. Í janúar til mars í fyrra seldust að meðaltali 33 prósent nýrra íbúða undir ásettu verði en fyrstu þrjá mánuði þessa árs var það hlutfall 48 prósent. Aðrar íbúðir en nýbyggingar hafa í gegnum tíðina verið talsvert líklegri til að seljast undir ásettu verði og það sem af er ári mælist það hlutfall að meðaltali 81 prósent. Á sama tímabili í fyrra var það hins vegar um 79 prósent.
Á sama tíma hefur ásett verð hækkað hraðar á nýbyggðum íbúðum en á öðrum innan höfuðborgarsvæðisins. Í apríl síðastliðnum var auglýst fermetraverð í nýbyggingum að meðaltali um 8 prósent hærra en í apríl 2018 en í öðrum íbúðum hækkaði auglýst meðalfermetraverð um 5 prósent á sama tímabili.
Meðalfermetraverð í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu er nú um 18 prósent hærra en í öðrum íbúðum og það bil hefur almennt farið vaxandi frá því í ágúst í fyrra. Auglýst fermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu mælist nú hátt í 600.000 krónur að meðaltali á meðan ásett verð annarra íbúða þar er um 500.000 krónur á fermetra.
Meðalsölutími nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu styttist
Þá hefur meðalsölutími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu styst á síðustu mánuðum, eða frá því í október í fyrra, á sama tíma og meðalsölutími annarra íbúða hefur hækkað lítillega. Meðalsölutími nýrra íbúða sem seldust í marsmánuði var 148 dagar samanborið við 184 daga í október. Meðalsölutími annarra íbúða en nýbygginga hefur aftur á móti farið örlítið hækkandi frá því í fyrrasumar. Hann mældist í marsmánuði 85 dagar en 71 dagur í október í fyrra, en í skýrslunni kemur fram að októbermælingin er um 10 dögum undir meðaltali tímabilsins frá upphafi árs 2014.
Utan höfuðborgarsvæðisins hefur meðalsölutími nýbygginga farið hækkandi það sem af er ári en nokkurn veginn staðið í stað í tilfelli annarra íbúða. Í marsmánuði tók að meðaltali 197 daga eða ríflega hálft ár að selja þær nýbyggðu íbúðir sem seldust í þeim mánuði samanborið við rúma 4 mánuði í október. Það sem af er ári hefur að meðaltali tekið 128 daga að selja aðrar eignir en nýjar fyrir utan höfuðborgarsvæðið samanborið við 126 daga í lok síðasta árs.